Arnold á Arnold Classic Europe á síðasta ári. (Ljósm:Einar Guðmann)

Þau stórtíðindi heyrðust í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni á föstudaginn að Arnold Classics mótið yrði haldið á Íslandi á næsta ári.

Eðlilega sperrtu menn eyrun, enda um risaviðburð að ræða.

Viðmælandi þeirra félaga í Bítinu á Bylgjunni var Hjalti „Úrsus“ Árnason.

Hjalti kynnti mótið fyrir viðmælendum sínum sem „stærsta íþróttaviðburð heims.“ Þarna kæmu „þúsundir keppenda“ í fjölmörgum íþróttagreinum og „þúsundir túrista“ til landsins, svo vitnað sé í orð Hjalta.

„Arnold kemur!“, sagði hann ennfremur. „Reyndar á eftir að ganga frá að hann komi sjálfur,“ bætti hann við.

Arnold Classic mótin eru haldin einu sinni á ári. Eitt mót í hverri heimsálfu. Bandaríkjunum, Evrópu, Asíu, Ástralíu, Afríku og Suður-Ameríku.

Það væri stórfrétt ef rétt væri að Íslandi hefði tekist að fá að halda Arnold Classics fyrir Evrópu.

Því miður eru engar líkur á að Arnold Classic verði haldið á Íslandi á næsta ári. Það er ekki heldur nein hætta á að Arnold Schwarzenegger sé á leiðinni til landsins.

Fitness.is hafði samband við Bob Lorimer, eiganda Arnold Classic. Óskaði honum til hamingju með að hafa ákveðið að halda Arnold Classic á Íslandi. Bað hann um að kommenta á það.

Það hefur nefnilega lengi legið fyrir að Arnold Classics Europe er alltaf haldið í Barcelona á Spáni. Í Barcelona er jafnframt stærsta mótið á heimsvísu og langt er síðan tilkynnt var að mótið yrði haldið þar í september 2018.

Bob Lorimer var fljótur að kveða niður allar vonir um að Arnold Classic yrði haldið á Íslandi. Hann tók sömuleiðis af allan vafa um að Arnold sjálfur myndi mæta á svæðið. Svo vitnað sé í hans orð:„Þetta er ekki rétt. Við erum að skoða það að halda útsláttarmót fyrir Arnold Strongman keppnina – og nei, Arnold mun ekki mæta.“

Haldin eru sex Arnold Strongman mót víðsvegar um heiminn á hverju ári. Tilgangur þeirra er að gefa sigurvegaranum á hverju móti þátttökurétt á Arnold Pro Stongman kraftaþrautakeppninni sem er hluti af Arnold Sports Festival.

Það sem við erum að tala um er að mótið sem haldið verður hér á landi er eitt af sex útsláttarmótum fyrir kraftakeppnina.

Það er himinn og haf á milli Arnold Strongman útsláttarkeppninnar og Arnold Classic.

Sumum tekst að gera mikið úr litlu. Það er mjög eftirminnilegt þegar Hjalti hélt á sínum tíma fitnessmót í Færeyjum með sjö keppendum og kallaði það Evrópumót.

Hjalti kynnti mótið í Færeyjum sem risaviðburð á heimsvísu í íslenskum fjölmiðlum og því kemur ekki á óvart að í dag skuli hlutirnir blásnir upp. Sumum tekst að láta minnstu uppákomur hljóma sem heimsviðburði. Fjölmiðlar vita síðan ekki betur og láta tungulipurð og hástemmd lýsingarorð villa um fyrir sér.

Alþjóðasamband líkamsræktarmanna, IFBB sem starfar í 192 löndum er nefnilega eina íþróttasambandið í þessum geira.

IFBB alþjóðasambandið er fyrir keppendur í fitness það sama og FIFA alþjóðaknattspyrnusambandið er fyrir keppendur í fótbolta.

Alls eru haldin hátt í 2000 mót á vegum IFBB á heimsvísu. Hápunktur þeirra eru heimsmeistaramótin. Það eru jafnframt sterkustu mótin.

Eflaust verður haldið alþjóðlegt útsláttarmót í kraftaþrautum hér á landi sem er frábært. Ennfremur kæmi engum á óvart að smalað yrði keppendum á fitness- og vaxtarræktarmót. Keppendum sem eru tilbúnir til að fara í keppnisbann og standa utan IFBB íþróttasambandsins.

Við skulum kalla hlutina það sem þeir eru. Þó ekki væri nema af virðingu við keppendur sem keppa í íþróttinni.