Það dregur verulega úr hættunni á efnaskiptatengdum sjúkdómum ef stundaðar eru æfingar í tækjasal.

Milljónir karlmanna eru hrjáðir af hinum ýmsu sjúkdómum sem rekja má til versnandi efnaskipta. Hjartasjúkdóma, sykursýki og hjartaslag má rekja til efnaskipta líkamans. Með tilkomu offitu hlaðast upp áhættuþættir eins og mikið mittismál, of mikið af þríglyseríðum í blóðinu, of lítið af HDL (góða) kólesterólinu, of hár blóðþrýstingur og of hár blóðsykur.

Það er engin lausn að skella sér í megrunarkúr. Nær væri að skella sér í ræktina. Samkvæmt nýlegri rannsókn sem birt var í Mayo Clinic Proceedings dregur verulega úr hættunni á efnaskiptatengdum sjúkdómum ef stundaðar eru æfingar í tækjasal. Jafnvel þó ekki séu teknar brennsluæfingar.

Mayo Clinic er ein virtasta heilbrigðisstofnun heimsins og rannsóknin var mjög umfangsmikil. Alls tóku 7.418 manns þátt í rannsókninni. Flestir voru í nágrenni við miðjan aldur. Meðalaldurinn var 46 ár.

Ekki var haft eftirliti með hverjum og einum í rannsókninni. Þátttakendur æfðu og gáfu skýrslu eftir leiðbeiningum sem gefnar voru út af Sjúkdómavarnastofnun Bandaríkjanna. Samkvæmt leiðbeiningunum átti að „stunda styrktaræfingar á borð við það að lyfta lóðum eða nota viðnámsteygjur. Álag skal vera frá miðlungsátaki til hámarksátaks og á að fela í sér alla vöðvahópa. Æfa skal tvo eða fleiri daga í viku… og þolæfingar skulu samtals vera minnst 500 efnaskiptamínútur (MET) á viku.“

Enginn þátttakendanna í rannsókninni var með efnaskiptasjúkdóm þegar hún hófst. 1147 manns eða 15% þróuðu með sér efnaskiptasjúkdóm næstu fjögur árin á meðan rannsóknin fór fram.

Rannsóknin snéri fyrst og fremst að karlmönnum. 19% þátttakenda voru konur.

Vísindamennirnir komust að því að styrktarþjálfun sem náði þeim viðmiðunum sem til var ætlast lækkaði áhættuna á efnaskiptasjúkdómum um 17%. Um klukkustundar viðnámsþjálfun á viku dró úr líkunum á efnaskiptasjúkdómum um 29% í samanburði við enga viðnámsþjálfun. Meiri þjálfun fól ekki í sér minni áhættu. Þátttakendur sem náðu bæði lágmarksviðmiðum í þjálfun og stunduðu þolfimiæfingar var í 25% minni hættu á að þróa með sér efnaskiptatengda sjúkdóma í samanburði við þá sem náðu ekki lágmarksviðmiðinu í æfingum.

Vísindamennirnir birtu eftirfarandi tilkynningu í lok rannsóknarinnar sem stóð í fjögur ár: „Heilbrigðisstarfsmenn ættu að mæla með að sjúklingar stundi styrktaræfingar og þolæfingar til að draga úr hættunni á efnaskiptatengdum sjúkdómum.“
(Mayo Clinic Proceedings, fréttatilkynning)