Fjöldi hjartalækna líta á hjartasjúkdóma sem bólgusjúkdóma. Það varpar nýju ljósi á þessa lífshættulegu sjúkdóma að átta sig á að æðabólgur geta valdið hjartaáföllum. Vísindamenn hafa uppgötvað prótín sem hægt er að nýta til að spá fyrir um æðabólgur. Feitt fólk og kyrrsetufólk mælist oft með meira magn af þessu prótíni en fólk sem er í formi.

Vísindamenn við Harvardháskóla komust að því að miðaldra konur sem borða mikið af hvítum sykri í formi sykraðra drykkja, sælgætis og sætabrauðs mælast með hátt gildi þessa prótíns.

Mataræði sem felur í sér mikla sykurneyslu veldur insúlínviðnámi sem aftur eykur magn insúlíns í blóðrásinni, hækkar blóðþrýsting, eykur kviðfitu, hækkar kólesteról og veldur kekkjamyndun í æðum.

Regluleg hreyfing og æfingar geta dregið verulega úr hættunni á myndun insúlínviðáms og neikvæðra áhrifa lélegs mataræðis.

(Am J Clin Nutr, 75: 492-498)