Tímamótarannsóknir sem gerðar hafa verið við virta háskóla sýna fram á að kolvetnaskert mataræði er áhrifaríkari leið til léttingar fyrstu vikurnar en hefðbundið niðurskurðarmataræði. Vaxtarræktarfólki þykir þessi vísdómur vafalaust áhugaverður þar sem takmarkið er að skera niður fitu eins og mögulegt er til að ná fram skornum, stórum og þroskuðum vöðvum.

Kolvetnaskert mataræði er til skamms tíma heppilegt til að losna við aukakíló en það er ekki jafn heppilegt til að viðhalda styrk og þreki. Lóðalyftingar og átök í tækjasölum kosta mikið þrek og forsenda framfara er að æfa af kappi. Þar kemur kolvetnaskorturinn sér illa. Þegar átök fara umfram 65% af hámarksgetu notar líkaminn kolvetni sem orku. Ef kolvetni eru ekki til staðar hallar á getuna til átaka.

Dr. Greg Haff og Adrian Whitley hafa skrifað ítarlega úttekt um mataræði og þjálfun undir miklu álagi. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að mataræði sem inniheldur minna en 42% kolvetni væri ekki að standa undir þeirri orkuþörf sem krefjandi lóðaátök og æfingar þurfa á að halda. Þeir ályktuðu að hófleg kolvetnaneysla sem væri á bilinu 43-50% kæmi ekki niður á frammistöðu í átökum. Minna en það væri þar af leiðandi ekki að standa undir væntingum.

Það sem íþróttamenn, vaxtarræktarfólk, Crossfittarar og aðrir sem stunda erfið lóðaátök þurfa að hafa í huga er að þegar æft er fyrir keppni þarf að fá í það minnsta hóflegt magn af kolvetnum ef ætlunin er að æfa af kappi. Meðalálag í æfingum hefur hingað til ekki komið neinum á verðlaunapall.

(Strengt Cond J, 24: 42-53)