Þjálfarar og næringarfræðingar hafa varað við of mikilli prótínneyslu vegna meintrar hættu á að það geti skaðað nýru og lifur.

Kenningin er sú að prótín valdi álagi á þessi líffæri sem valdi uppsöfnun eiturefna með tilheyrandi skaða. Einnig hefur verið talið að mikið prótín geti verið sérlega skaðlegt fyrir íþróttamenn sem eru í vökvaskorti. Þrátt fyrir þessar kenningar hafa vísindamenn ekki getað fullyrt að prótín í fæðubótarefnaformi valdi skaða.

Belgísku vísindamennirnir og doktorarnir Jacques Poortman og Olivier Dellalieux urðu ekki varir við nein nýrna né lifrarvandamál hjá íþróttamönnum sem tóku 2,5 grömm af prótíni á hvert líkamskíló. Prótínið var tekið ýmist í kjölfar þjálfunar eða í hvíld.

Þetta skiptir marga íþróttamenn miklu máli. Margar rannsóknir sýna að prótín í fæðubótarefnaformi sem tekið er annað hvort fyrir eða eftir æfingu flýtir fyrir nýmyndun vöðva. Þessar niðurstöður ættu að veita hugarró þeim sem eru að borða mikið af fæðubótarefnum sem innihalda prótín. Ástæður fyrir nýrnaverkjum geta verið nokkrar en prótínneyslan þarf ekki að vera sökudólgurinn þó aldrei ætti að útiloka neitt, sérstaklega ef vafi leikur á gæðum fæðubótarefnana.

Þessi rannsókn Belgana sýnir að nýrun og lifrin í heilbrigðu fólki þola mikið prótín án vandræða.

(Int J Sports Nutrition, 10: 28-38)