Í tilefni 25 ára afmælis fitnessmóta hér á landi verður haldið Bikarmót í fitness í Hofi á Akureyri 9. nóvember.

Það var 27. nóvember 1994 sem fyrsta fitnessmótið var haldið hér á landi. Í ár eiga fitnessmót því 25 ára afmæli. Það voru þeir Sigurður Gestsson og Einar Guðmann sem héldu fyrsta mótið sem fór fram á Hótel Íslandi en einungis sjö keppendur tóku þátt á þessu fyrsta móti.

Haldið í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri

Í tilefni 25 ára afmælis fitnessmóta hér á landi er ætlunin að halda Bikarmótið í fitness í Hofi á Akureyri 9. nóvember. Til margra ára voru fitnessmótin haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri og því eiga þau ákveðnar rætur þar. Mörg ár eru síðan fitnessmót hefur verið haldið utan Reykjavíkur og því þykir viðeigandi að minnast þessa áfanga með því að halda mótið á Akureyri. Íslandsmótið verður að venju haldið í Háskólabíói um páskana.

Tilboð í gistingu á hótelum

Hótel Norðurland og Hótel KEA hafa gert gestum og keppendum frábært tilboð í gistingu dagana 9-11 nóvember.

Þessi tilboð eru vægast sagt glæsileg. Þeir sem hyggjast nýta sér þau nota kóðann „fitness“ þegar gisting er bókuð á www.keahotels.is. Verðin geta breyst lítillega í samræmi við breytingar á gengi.