Gyda_BAG32802Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir sigraði sinn flokk í módelfitness á síðastliðnu Íslandsmóti. Við báðum hana um að segja lesendum svolítið um sig og sinn bakgrunn.

Ég er 21 árs og fædd og uppalin á Akureyri. Ég bý hér ásamt kærastanum mínum, Braga Þór. Ég útskrifaðist sem stúdent fyrir ári síðan og er núna að vinna sem sölufulltrúi hjá Ölgerðinni.

Hvað kom til að þú fórst að keppa?

Áhuginn kviknaði hjá mér árið 2010, ég hafði þá verið að æfa listhlaup á skautum og jazzballet í nokkurn tíma en langaði að prófa eitthvað nýtt og þegar ég sá myndir af stelpum sem höfðu verið að keppa í módelfitness fannst mér það strax mjög áhugavert. Ég byrjaði því að afla mér upplýsinga og í kjölfarið byrjaði ég í ræktinni og fann strax að þetta var eitthvað sem ég hafði áhuga á.

Hversu oft hefurðu keppt og hvernig hefur gengið?

Ég hef núna keppt þrisvar í módelfitness, en fyrsta mótið mitt var íslandsmótið 2011 þar sem ég endaði í fjórða sæti í mínum flokk. Það mót kveikti ennþá meiri áhuga og ég fór strax á fullt að undirbúa mig fyrir bikarmótið sama ár. Það gekk mjög vel en þar náði ég að sigra minn flokk og náði einnig fyrsta sæti í heildarkeppninni. Eftir það mót ákvað ég að taka mér smá pásu til að sinna öðrum verkefnum. Síðastliðið haust fór ég svo að huga að fleiri mótum, og var svo heppin að komast í þjálfun hjá Sigurði Gestssyni hér á Akureyri. Þjálfunin hjá honum fyrir keppendur er bæði mjög öguð og fagleg og hann leggur mikla áherslu á að ná langt á alþjóðlegum mótum. Ég ákvað því að skella mér á Íslandsmótið núna í vor, sem gekk mjög vel en þar náði ég fyrsta sæti í mínum flokk og öðru sæti í heildarkeppni. Næst er stefnan tekin á fleiri mót í haust, sem á vonandi bara eftir að ganga vel!

Hvar æfirðu og hversu oft?

Ég æfi í Átaki við Strandgötu á Akureyri og hef æft þar alveg síðan ég byrjaði að lyfta. Þegar ég er ekki í niðurskurði fyrir mót þá lyfti ég 5-6 sinnum í viku, og skipti vöðvahópunum niður á daga vikunnar. Um það bil 12 vikum fyrir mót byrja ég í niðurskurði en þá lyfti ég alltaf 6 sinnum í viku og bæti svo inn brennsluæfingum eftir þörfum.

Hvernig er mataræðið í stuttu máli?

Það sem mér finnst skipta mestu máli í sambandi við matarræðið er að borða sem hreinasta fæðu og einnig er mjög mikilvægt að borða jafnt og þétt yfir daginn. Ég reyni að borða mikið af ávöxtum og grænmeti, og reyni að hafa alltaf eitthvað gott prótein með. Þegar ég er að undirbúa mig fyrir mót þá borða ég aðallega hafra, epli, skyr, master meal súpur, kjúkling, grænmeti og próteindrykki. Ég reyni að vera mjög dugleg að prófa mig áfram með allskonar mismunandi grænmeti og útbúa spennandi rétti, því maður er fljótur að fá leiða ef maður borðar það sama alla daga.

Það sem mér finnst skemmtilegast við að æfa fyrir módelfitness er að sjá árangurinn, það er bara svo gaman þegar maður sér árangur alls erfiðisins á sjálfum sér. Til þess að maður nái árangri er mikilvægt að maður sé að gera þetta fyrir sjálfan sig, og til að aðrir trúi á þig þarf maður líka að gera það sjálfur!