Halldór Heiðberg Stefánsson

Í nærmynd er Halldór Heiðberg Stefánsson Íslandsmeistari í Sportfitness

Ég heiti Halldór Heiðberg Stefánsson og er 21 ára gamall. Ég hef búið á Akureyri megnið af ævi minni en hef líka búið í Reykjavík og Svíþjóð. Ég er að útskrifast úr Verkmenntaskólanum á Akureyri núna í vor en var þar áður í Menntaskólanum á Akureyri.

Ég stefni á að fara í nám tengdu framleiðslu á tölvuleikum, eða þá aðallega tölvuleikja grafík og animation. Íslandsmótið 2019 var mitt fyrsta mót og ég hefði ekki getað verið ánægðari að taka fyrsta sæti í fyrstu tilraun. Hinsvegar var ferlið sem leiddi að mótinu ekkert grín og tók mikinn viljastyrk til að gera þetta að veruleika, það gat verið mjög snúið að finna sér tíma til þess að lyfta, gera cardio, æfa pósur eða elda mat þegar maður er í fullum skóla og 80% vinnu með því.

Það var ekki fyrr en svona 2017 sem maður fór að taka þessu alvarlega og hætti að lyfta bara til að lyfta, fékk mér alvöru þjálfara fylgdi þeim macros (prótein, kolvetni, fita) sem ég fékk frá honum (oftast) og fór að fylgja almennilegu æfingaplani og skrásetja æfingar.

Hvernig kom það til að þú fórst að keppa á fitnessmótum?

Nokkrir af félögum mínum hafa verið að keppa og ég hef alveg verið með þessa flugu í hausnum lengi en þegar tveir vinir mínir byrjuðu að skera niður fyrir bikarmótið 2018 ákvað ég að gera það líka, ekki til að keppa en bara sjá hvernig maður yrði. Síðan um jólin 2018 var ég komin í það gott form að ég sá að ég ætti alveg erindi upp á svið og ákvað þá að ég myndi taka þátt á Íslandsmótinu.

Til að byrja með var maður ekkert að æfa með það í huga að maður myndi stíga upp á svið. Ég var alltaf mjög þungur sem krakki/unglingur og þá var maður fyrst og fremst að fara í ræktina bara til þess að hætta að vera feitur og auka sjálfstraust.

Hvernig er æfingakerfið þitt núna?

Einmitt núna er ég ennþá bara að reyna að koma mér aftur inn í rútínu eftir mótið en fyrir mót var ég í svokölluðu push, pull, legs kerfi. Þar sem þetta eru þá þrír dagar, push er bringa, fremri og hliðar axlir og tricep, pull er bak, aftari og hliðar axlir og bicep og legs er svo auðvitað fætur. Seinustu vikurnar fyrir mót skipti ég hinsvegar um prógram sem var, bak og bringa, axlir, hendur, fætur. Síðan tek ég oftast maga eftir allar æfingar og kálfa líka.

Er einhver persóna sem er þín helsta fyrirmynd – áhrifavaldur?

Ég á mjög erfitt með að nefna bara eina manneskju sem fyrirmynd, en meðal þeirra eru klárlega bara mamma og pabbi, þjálfarinn minn og vinir mínir. En sem fyrirmynd í líkamsræktar samhengi myndi ég segja Arnold Schwarzenegger og auðvitað Zyzz.

Halldór Heiðberg Stefánsson

Hvernig er mataræðið síðasta mánuðinn fyrir mót?

Seinasta mánuðinn hætti ég alfarið að borða allar mjólkurvörur, þar á meðal prótein duft. Tók út megnið af sykurlausum drykkjum og skipti alfarið yfir í vatn. Svo var eiginlega það eina sem ég borðaði hvítur fiskur, kalkúnahakk, egg og hrískökur. Það gat verið ansi dýrt og leiðinlegt að borða 270g af próteini á dag bara úr hvítum fisk.

Hvernig er mataræðið á milli móta?

Akkúrat núna er ég ekki með neitt mataræði en það er nú bara rúm vika síðan mótið var. En planið er auðvitað að stækka núna þannig að ég fer að öllum líkindum bara í svipað mataræði og ég var á fyrir mót nema bara meira af mat (s.s áður en ég var á fisk og hrísköku mataræðinu) en það er þá mest kjúklingur, nautakjöt, kalkúnahakk, egg, hakk og próteinduft fyrir prótein, hrísgrjón, cous cous, brauð og pasta fyrir kolvetni og svo þarf ég venjulega lítið að spá í einhverju sérstöku fyrir fitu því það er venjulega gríðarlega auðvelt að ná 50-60g af fitu á dag bara úr hakki/eggjum og svo ef maður fær sér einhverja sósu eða eitthvað þannig. En ég semsagt fæ macros vikulega frá þjálfaranum mínum (oftar þegar ég var í móts undirbúningi) sem eru t.d 250g prótein, 180g kolvetni og 55g fita, síðan einfaldlega vigta ég rétt magn af mat til þess að ná þessum tölum á hverjum degi. Síðan er ég reglulega með svokallað refeed þar sem ég tek 2-3 daga og borða hátt í 400g af kolvetnum. En þegar maður er ný búinn á móti þá leyfir maður sér kannski aðeins inn á milli, síðan finnst mér líka mjög þægilegt að klára ekki alltaf kolvetnin og fituna sem ég hef yfir daginn til að maður geti kannski svindlað smá.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Ég vakna venjulega um 7:30 og kem mér af stað í ræktina í cardio á tómum maga, ég hef reyndar ekki verið að gera þetta núna rétt eftir mót en mun örugglega taka upp á þessu aftur, gott fyrir sálina að byrja daginn á cardio. Fyrir mót var ég að taka klukkutíma á dag. Eftir cardio dríf ég mig heim í sturtu og fæ mér að borða. Klassískur morgunmatur hjá mér eru tvær ristaðar brauðsneiðar með skinku eða engu og tvær skeiðar af prótíni. Síðan tek ég til ræktarföt og mat sem ég þarf yfir daginn skelli því í tösku og fer í skólan sem byrjar oftast 9:55 hjá mér. Ég er búinn um 13:00 venjulega og fer þá beint í vinnuna. Síðan er ég mis lengi þar en er oftast búinn um 6-7 leitið. Eftir vinnu fer ég svo aftur í ræktina í þá lyftingar. Síðan er maður kominn heim um svona 8-8:30 og þá er það sturta og svo að vinna í fjarnáminu. Eftir fjarnámið eru ekkert margir tímar eftir í deginum en maður reynir að gera sér tíma til að elda fyrir næstu daga, vinna í 3D grafík, hitta fjölskyldu/kærustu/vini eða sinna einhverjum af áhugamálunum sínum.

Ferlið sem leiddi að mótinu var ekkert grín og tók mikinn viljastyrk til að gera þetta að veruleika, það gat verið mjög snúið að finna sér tíma til þess að lyfta, gera cardio, æfa pósur eða elda mat þegar maður er í fullum skóla og 80% vinnu með því.

Helstu áhugamál?

Síðan ég var krakki hef ég verið mikill tölvukall og tölvuleikja spilari, þannig tölvuleikir er klárlega það fyrsta sem kemur upp í hugan fyrir utan líkamsrækt. Síðustu ár hef ég hinsvegar meira og meira verið að færa mig úr því að spila og er núna frekar í því að skapa grafík, karaktera og umhverfi o.s.frv. fyrir leiki. Síðan er það auðvitað líkamsrækt sem síðastliðin ár hefur étið upp mikið af tíma og orku sem ég hef, sem hefur nú samt klárlega borgað sig. Annað áhugamál er matur, sem fer alveg frábærlega með þessari íþrótt. Og svo bækur, kvikmyndir, föt og tækni og alveg fullt af öðru.

Hvað er framundan á næstunni?

Ég stefni á að sækja um í Margmiðlunarskólanum og þá flytja suður núna í haust, ég sé fram á að þá muni ég að lokum hafa almennilegan tíma til þess að sinna bæði tölvugrafíkinni ásamt líkamsrækt þar sem ég ætla í fyrsta skipti síðan ég byrjaði í menntaskóla ekki að vinna með skólanum. Annars ætla ég bara að halda áfram að lyfta og bæta mig bæði líkamlega og andlega og svo er auðvitað stefnan sett á að keppa aftur.