Í nærmynd er Oggi Petrovic Íslandsmeistari í sportfitness. Hann kom sá og sigraði á Íslandsmótinu í fitness þegar hann sigraði fyrst unglingaflokkinn, síðan sinn hæðarflokk og að lokum heildarkeppnina í sportfitness.
Hver er Oggi Petrovic?
Ungur Skagfirðingur búsettur á Selfossi með mikinn áhuga fyrir fitness og öllu í kringum það.
Aldur og fyrri störf?
Ég varð 19 ára núna fyrsta mars, einmitt í miðjum undirbúning fyrir Íslandsmótið í fitness svo það var ekki svindlað mikið á afmælisdeginum. Stunda nám við FSU á Selfossi, er á náttúrufræðibraut. Gekk í grunnskóla í Árskóla á Sauðárkróki og Vallaskóla á Selfossi.
Hvaðan ertu?
Kem frá Serbíu. Fæddist þar í borginni Kraljevo en svo flutti fjölskyldan til Íslands á Sauðárkrók árið 2002 og loks á Selfoss um jólin 2008 þar sem við búum núna.
Fjölskylduhagir?
Við reynum að halda í siðina sem mamma og pabbi ólust upp við úti í Serbíu. Til dæmis höldum við jólin bæði 24. desember og svo líka 6. janúar samkvæmt dagatalinu úti. Fáum líka páskana tvisvar.
Helstu áhugamál?
Er mjög mikið fyrir líkamsrækt, fótbolta og tónlist. Var lengi í tónlistarskóla að læra á gítar og æfði fótbolta í 9 ár áður en ég sneri mér svo að líkamsrækt vegna meiðsla. Fylgist ennþá mikið með fótbolta og glamra reglulega á gítarinn þegar ég er ekki í ræktinni.
Uppáhalds tónlist?
Fer mikið eftir því hvað ég er að gera. Helst eitthvað edm, hip hop eða rokk ef ég er í ræktinni en annars hlusta ég eiginlega á allskonar tónlist þegar ég er bara að „chilla“.
Uppáhaldskvikmynd?
Shooter með Mark Wahlberg er ein besta mynd sem ég hef séð.
Hvaða bók tækirðu með á eyðieyju?
Mjög líklega einhverja hugleiðslu bók, hef ekki kynnt mér þær ennþá.
Hvað ætlar þú að vera að gera eftir 10 ár?
Mig langar að fara út í íþrótta- læknisfræði eftir framhaldsskólann og halda áfram í líkamsrækt. Eftir 10 ár væri fínt að vera kominn með vinnu sem læknir í einhverju liði eða félagi og keppa í fitness auk þess.
Hvernig er fullkomin helgi?
Æfa eitthvað smá, leyfa mér svindlmáltíð eða tvær og kíkja til Reykjavíkur með nokkrum vel völdum.
Hver er uppáhalds veitingastaðurinn?
Saffran og Jamie’s Italian eru tveir svakalegir.
Uppáhalds óholli maturinn?
Klárlega pítsa.
Uppáhalds holli maturinn?
Nautasteik og sætar.
Hvenær ferðu á fætur á morgnana?
Vakna alltaf 07:40 ef það er skóli annars um tíuleytið
Hefur þú lent í vandræðalegu augnabliki?
Jájá margoft, sérstaklega á grunnskólaárunum. Hélt að ég væri hæfur til að klippa sjálfan mig en það fór ekki eins og ég ætlaðist til. Eitt óþæginlegasta/vandræðalegasta móment sem ég hef upplifað var að útskýra það fyrir manninum sem hefur klippt mig síðustu 10 árin.
Uppáhaldsíþróttamaður?
Cristiano Ronaldo er ótoppanlegur í boltanum og svo er ég mikill aðdáandi Jeff Seid í fitness heiminum.
Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?
Ég vakna fer í skólann, passa auðvitað mikið að borða á réttum tíma, fer á æfingu í World Class beint eftir skóla, fer svo aðeins heim að hvíla mig og læra ef ég á eitthvað eftir. Kemur fyrir að ég fari í sund um kvöldið en annars er það smá rúntur með félaga eða bara meira chill heima.
Uppáhaldsdrykkur?
Núna er það Ripped og ég held að hann verði það lengi.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu?
The life of Nikola Tesla eins og er.
Hvert færirðu í draumaferðalaginu?
Hef aldrei farið til neins Asíulands. Langar sérstaklega mikið að ferðast um Nepal, Japan og Mongólíu.
Hvað ætlarðu að gera á næstunni?
Ég mun búa í Reykjavík í sumar og vinna þar. Fara svo líklega í Háskóla um áramótin. Ég stefni svo á að keppa aftur á næsta ári á Íslandsmótinu í Fitness og keppa líka eitthvað úti fljótlega eftir það.