Áður en við förum að velta fyrir okkur hvenær dags best sé að fara í ræktina skulum við hafa á hreinu að besti tíminn er sá sem hentar þér. Mikilvægast er að mæta.

Fyrstu líkamsræktarstöðvarnar á Íslandi byggðust á fólki sem var í fullri vinnu annars staðar. Þær opnuðu því flestar klukkan fimm á daginn og voru opnar fram eftir kvöldi. Í dag eru sumar stöðvar opnar allan sólarhringinn og óhætt er að fullyrða að allar æfingastöðvar sem taka sig alvarlega opna snemma á morgnana.

Þessi þróun hefur orðið til þess að stór hópur fólks æfir eldsnemma að morgni áður en farið er til vinnu. Sumir eru ekki þetta árrisulir og telja sig ekki undirbúna í átök snemma að morgni og fara í líkamsræktina eftir vinnu. Líklega er vinsælasti tíminn skömmu fyrir kvöldmat.

Morgunæfing

Enn má finna fólk sem fussar yfir öðru fólki sem nennir að vakna klukkan fimm eða sex að morgni til að fara á æfingu fyrir vinnu. Varast ber að láta slíkt hafa áhrif á sig. Það er ekki ólíklegt að sama fólkið nenni hvort eð er aldrei að æfa.
Stærsti kosturinn við morgunæfingu er að þegar líður á daginn er margt sem getur truflað. Börnin, vinnan, vinir – allt getur þetta orðið til þess að seinnipartsæfing dettur niður vegna anna. Með því að setja sér þá reglu að vakna alltaf á sama tíma og fara í ræktina eru minni líkur á að eitthvað óvænt komi í veg fyrir að hægt sé að fara á æfingu þann daginn. Morgunæfing hentar vel annasömu fólki.

Það eru ýmsir kostir sem fylgja því að æfa snemma að morgni. Efnaskipti líkamans verða hraðari og það er góð byrjun á deginum.

Hádegis- eða seinnipartsæfing

Fjöldi vinnustaða gefa kost á að fólk skreppi á stutta æfingu í hádeginu. Ef aðstæður heima útiloka morgun- eða seinnipartsæfingu getur hádegisæfing verið góður kostur. Það þarf ekki endilega meira en 45 mínútur til að taka stutta æfingu og fara í sturtu ef rétt er á haldið.

Best er að borða eftir æfinguna, ekki fyrir. Almennt er ekki heppilegt að fara á erfiða æfingu fyrr en um klukkustund eftir máltíð. Svolítið millimál er þó í góðu lagi fyrir æfingu.
Líklega æfa flestir á tímabilinu fjögur til sjö á daginn. Auðvitað er í góðu lagi að taka æfingu seinna að kvöldi en hafa ber þá í huga að sumum gengur illa að sofna skömmu eftir erfiðar æfingar.

Styrktaræfingar brenna hitaeiningum lengur yfir daginn og stuðla að meiri heildarbrennslu þegar upp er staðið.

Besti tíminn fyrir líkamann

Það er engin spurning að seinnipartsæfing hentar líkamanum best. Testósterón og kortísól líkamans er í hámarki að morgni til og lágmarki seinnipartinn. Hér áður fyrr ráðlögðu þjálfarar fólki að æfa að morgni til þess að nýta þennan hápunkt dagsins í testósteróni – vegna mikilvægis þess í vöðvauppbyggingu. Gallinn við það er að kórtísólið er líka í hámarki á sama tíma sem er ekki heppilegt fyrir besta hormónaumhverfið í líkamanum. Ef náttúrulegur hormónabúskapur líkamans ætti að ráða ferðinni er best að æfa seinnipartinn.

Samkvæmt mælingum hækkar hlutfall testósteróns umfram kortísól mest ef æft er um kl 18.00. Vöðvaniðurbrot verður minna og meiri árangur næst á styttri tíma.
Seinnipart dags er líkaminn liðugur og líkamshitinn í hámarki. Flestum þykir því auðveldara að hita upp, taka á og teygja þegar liðið er á daginn í samanburði við morgunæfingar. Mun auðveldara er að teygja á vöðvum seinnipartinn þegar þeir hafa hitnað. Orka og kraftur virðist sömuleiðis aukast eftir því sem líður á daginn og lungnaafköst eru í hámarki. Það þekkja kraftlyftingamenn sem vita að líkaminn er tiltækastur í hámarksátök seinnipart dags.

Samantekt

Í stuttu máli má segja að hver og einn þurfi að finna tíma sem honum hentar. Reynslan sýnir að þeir sem æfa á morgnana eru staðfastari en aðrir. Þeir æfa meira eða minna allt árið og æfingar falla síður niður því margt getur raskað æfingaplönum þegar líða tekur á daginn. Morgunhanar eru reglufastir og láta annir dagsins ekki koma í veg fyrir æfingu. Það hentar líkamanum hinsvegar betur að æfa seinnipart dags vegna þess að þá er hann orðinn heitari og móttækilegri fyrir æfingum. Númer eitt. Mæta reglulega.