Ýmsar kenningar eru uppi um ástæður sinadrátta. Ein kenningin er sú að vökvaskorti sé um að kenna. Sá sem hefur upplifað alvöru sinadrátt veit að sársaukinn er mikill og undir niðri kraumar ótti við að þetta gerist aftur. Margir vakna upp við vondan draum um miðja nótt með sinadrátt og því kunna þeir að velta fyrir sér hvort til sé lausn á þessum hvimleiða kvilla.

Ákveðin dulúð hvílir yfir orsökum sinadrátta. Ekki er hægt að fullyrða hvað veldur og þessir undarlegu sársaukafullu krampar eru því sveipaðir dulúð og kenningarnar eru margar.

Algengustu fórnarlömbin eru íþróttamenn sem hafa stundað þjálfun eða átök sem reyna mikið á ákveðna vöðva. Langhlauparar og hjólreiðafólk er gott dæmi. Stundum er þjálfunin meiri en góðu hófi gegnir og í kjölfarið kemur refsingin í formi sinadráttar um miðja nótt.

Kenningarnar um ástæðu sinadrátta snúast um vökvatap, ofáreynslu, steinefnaskort eða ójafnvægi í blóðsöltum. Lausnirnar snúast hinsvegar um nudd, teygjur eða mataræðið.

Engar vísindalegar rannsóknir liggja að baki því hvað best sé að gera í mataræðinu til að losna við sinadrætti. Eftirfarandi tillögur eru þrátt fyrir það eitthvað sem ætti að skoða.

Vökvaskortur og áhrif áfengis

Sinadrættir gera oft vart við sig þegar vökvaskortur er til staðar. Sem forvörn ætti því að drekka mikið af vökva bæði fyrir, á, og eftir æfingar. Drekka þarf nægilega mikið til að þvagið sé glært, ljósgult og í miklu magni.
Forðast ætti að drekka áfenga drykki strax á eftir langvarandi þrekæfingum, göngu eða átökum. Áfengi, hvort sem það er bjór, léttvín eða sterkara veldur vessaþurrð. Það þarf því ekki að koma á óvart ef sinadrættir gera vart við sig ef áfengi í stað vatns er drukkið strax eftir erfiða hreyfingu. Ráðlegast er að drekka vel af vatni eftir þrekraun og ef endilega þarf að drekka áfengi – t.d. bjór – að gera það þá eftir ríkulega vatnsdrykkju.

Kalkskortur

Kalk gegnir veigamiklu hlutverki í vöðvasamdrætti. Kenningar eru uppi um að þeir sem forðast mjólkurvörur og stunda erfiðar æfingar séu oft þjakaðir af sinadráttum. Dæmi eru um hjólreiðamenn sem hafa læknast af sinadráttum með því að borða jógúrt annað slagið. Þetta er þó kenning sem fáir vísindamenn kvitta fyrir. Kalk er ólíklegur sökudólgur vegna þess að bein innihalda mikið af kalki. Ef kalkskortur er til staðar er líklegt að líkaminn nýti kalkið í beinunum til að viðhalda eðlilegum vöðvasamdrætti.

Ef sinadrættir eru stórt vandamál er engu að síður auðvelt að gera tilraun með að borða meira af kalkríkum fæðutegundum eins og t.d. mjólkurvörum, sardínum, tófú, mysuprótíni eða möndlum og sjá til hvort það skili árangri.

Magnesíumskortur

Magnesíum gegnir veigamiklu hlutverki í vöðvakerfi líkamans. Það leikur stórt hlutverk í vöðvasamdrætti eins og kalkið og er mikilvægt fyrir taugaboð. Kalkið gegnir hlutverki við samdrátt vöðva, en magnesíum við að slaka á þeim. Það er því freistandi að búa til þá kenningu að magnesíum geti læknað sinadrætti. Ekki eru til vísindi sem styðja kenninguna umfram þetta hlutverk magnesíums og því ætti ekki að taka þessa kenningu of bókstaflega. Ef sinadrættir eru stórt vandamál er vel reynandi að taka magnesíum sem fæðubótarefni. Hægt er að fá magnesíum í ýmsum fæðubótarefnum en helstu fæðutegundirnar sem innihalda magnesíum eru dökkt súkkulaði, avokadó, hnetur, grænmeti, tófú, kornmeti, feitur fiskur og bananar.

Kalíumskortur

Skortur á kalíum veldur ójafnvægi í blóðsöltum. Kenningin er sú að kalíum geti þannig valdið sinadráttum. Hægt er að útiloka þessa kenningu með því að borða daglega fæðutegundir sem innihalda mikið af kalíum. Þar ber helst að nefna banana, ferska ávexti og grænmeti eins og appelsínur, apríkósur, spínat, spergilkál, kartöflur, sveppi og baunir svo nokkrar tegundir séu nefndar. Við þetta má bæta mjólk og jógúrt, túnfisk, ýsu, þorsk og urriða.

Áfengisdrykkja á eftir þrekraun er grunsamlega oft tengd sinadráttum.

Natríumskortur

Þeir sem hugsa mikið um mataræðið með heilsuna í huga reyna að draga úr saltneyslu í þeim tilgangi að lækka blóðþrýsting. Ef þeir missa líka mikið af salti í gegnum svita er hugsanlegt að ójafnvægi komist á saltbúskapinn í líkamanum og þar liggi orsök sinadráttana.

Líklegast er að þetta gerist hjá langhlaupurum og þeim sem stunda langvarandi þrekraunir, sérstaklega er þeir hafa einungis drukkið vatn en ekki drykki sem innihalda salt.

Salt gegnir mörgum hlutverkum í líkamanum og er í fjölda fæðutegunda auk þess sem við fáum mikið af salti með því að krydda matinn. Of mikið af salti hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar og því ber að fara varlega í að nota of mikið af því í matinn.

Samantekt

Nokkrar kenningar eru til sem taldar eru boða lausn á sinadráttum. Allar fremur óvísindalegar. Hvort þessar kenningar séu að virka er einungis hægt að sannreyna með því að prófa. Tilgáturnar um orsakir sinadrátta sem fjallað er um hér að ofan eru nákvæmlega það og ekki meira – tilgátur. Sumir sverja að þær virki og því er um að gera að prófa sig áfram ef sinadrættir eru vandamál.