Margrét Gnarr sigraði.
Margrét Gnarr sigraði.Fékk meðal annars veglegt sverð að gjöf sem verður fróðlegt að ferðast með heim.

Vann sér inn þátttökurétt á Olympía – draumurinn rætist

Margrét Edda Gnarr sigraði á IFBB Legends Pro Classic atvinnumannamótinu sem hún keppti á í nótt í Bandaríkjunum og vann sér þar með inn þátttökurétt á Olympia. Þetta er stórt stökk fyrir Margréti þar sem Olympia mótið er endastöðin hjá atvinnumönnum í líkamsrækt. Heimsmeistaramót atvinnumanna ef svo má segja.

Margrét Edda Gnarr er eini íslenski atvinnumaðurinn hjá IFBB og er með þessum stórkostlega árangri vægast sagt komin út í djúpu laugina. Allir keppendur, hvort sem það er hjá áhugamanna- eða atvinnumannadeildinni eiga sér þann draum að fá að keppa einn daginn á Olympia. Ofar verður ekki komist í keppnisheiminum.

Á atvinnumannamótum er keppendum ýmist boðið að keppa eða þeir geta unnið sér inn þátttökurétt á mótum með því að sigra úrtökumót. Það var mikil gleði í herbúðum IFBB keppenda hér á landi þegar ljóst varð að Margrét Gnarr hefði verið boðið að keppa á IFBB Legends Pro Classics, ekki síst þar sem mótið gefur sigurvegaranum í hennar flokki heimild til að keppa á Olympia.

Alls var 16 keppendum boðið að keppa á IFBB Legends Pro Classics en Margrét var keppandi númer ellefu á mótinu.

MargretEddaGnarr_2

IFBB LEGENDS CLASSIC PRO BIKINI CHAMPIONSHIPS *Olympia Qualifier*

#1 Lisa Asuncion
#2 Cynthia Benoit
#3 Amber Callahan
#4 Adrienne Crenshaw
#5 Harriet Davis
#6 Kim Estess
#7 Eli Fernandez
#8 Emma Fernandez
#9 Ashley Gaines
#10 Aly Garcia
#11 Margret Gnarr
#12 Michelle James
#13 Dianet Pereda
#14 Lindsay Pinsonneault
#15 Taylor Rhodenbaugh
#16 Marissa Rivero

Gefinn er út listi yfir úrtökumót fyrir Olympia mótið á hverju ári. Þeir sem hafna í öðru til fimmta sæti vinna sér inn stig og fimm stigahæstu keppendurnir á ákveðnum mótum fá rétt til að keppa á Olympia. Margrét Edda Gnarr þarf ekki að hafa áhyggjur af því núna þar sem hún sigraði.

legendsclassic

Margrét varð heimsmeistari hjá áhugamannadeild IFBB 2013 og vann sér þannig inn rétt til að verða atvinnumaður. Hún segir sjálf frá því að hún átti sér alltaf þann draum að keppa á Olympia mótinu en hún keppti sjö sinnum á tveimur árum áður en hún vann sinn flokk á heimsmeistaramótinu. Árið 2014 keppti hún á Arnold Classic atvinnumannamótinu þar sem hún hafnaði í níunda sæti. Undanfarið ár hefur hún ekkert keppt en óhætt er að segja að sigurinn núna kemur henni á beinu brautina að draumamótinu.

Margrét Gnarr hefur undanfarið verið í þjálfun hjá Fitnessakademíunni þar sem þau Sigurður Gestsson, Jóhann Norðfjörð og Kristín Kristjánsdóttir þjálfa fjölda fólks. Það hefur verið áberandi hversu vel hefur gengið hjá þeim að koma keppendum á pall en sjálfsagt má þakka það áratugareynslu af þjálfun almennings og keppenda.

Við óskum Margréti til hamingju með árangurinn.