Jóhann Norðfjörð tók dómarapróf á Heimsmeistaramóti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna sem haldið var á Spáni í nóvember síðastliðnum. Í dag barst vottorð þess efnis að hann hefði staðist dómaraprófið. Jóhann Norðfjörð sem búsettur er á Akureyri hefur dæmt á innanlandsmótum hérlendis síðastliðin tíu ár. Hann keppti sjálfur í vaxtarrækt í nokkur ár og er í dag lærður einkaþjálfari. Hann er án efa einn af reyndustu dómurunum í fitness og vaxtarrækt hér á landi og því er vel við hæfi að hann öðlist þessi réttindi sem styrkja enn frekar fagmennsku í dómgæslu hér á landi. Fram til þessa hefur einungis Einar Guðmann haft alþjóðleg dómararéttindi en hann hefur dæmt á fjölda alþjóðlegra móta í fitness og vaxtarrækt víðsvegar um heiminn á undanförnum árum. Fitnessfréttir óska Jóhanni til hamingju með þennan áfanga.