Mikið er rætt og ritað um gildi D-vítamíns þessa dagana. Fiskur og fitusýrur eru þannig lofaðar í hástert fyrir hollustugildi sitt og má til sanns vegar færa að eitthvað sé til í því. Það eru Omega-3 fitusýrurnar, lágt fituinnihald og D-vítamínið sem fyrst er nefnt til sögunnar þegar fiskur er til umræðu. Selen er þessu til viðbótar enn ein ástæðan til þess að auka fiskneyslu. Fiskur inniheldur mikið selen og talið er að það hreinlega lengi ævina miðað við niðurstöður danskrar rannsóknar sem jafnframt bendir til að mataræði sem kennt er við Norðurlöndin sé hollara en svonefnt Miðjarðarhafsmataræði. Norðurlandamataræðið einkennist af fiski, rúgbrauði, káli og rótarávöxtum. Samkvæmt dönsku rannsókninni þurfa konur að borða a.m.k 35 g af fiski eða skelfiski á hverjum degi til þess að lengja ævina en karlar 41 g. Þetta eru ekki stórir skammtar eins og sjá má á þessum tölum. Jákvæðustu áhrif selens felast í að það vinnur gegn myndun lungna- og blöðruhálskirtilskrabbameins.

(Kræftens Bekæmpelse 2011)