PálmarSpjallað við Pálmar Hreinsson sem bætti íslandsmetið um tvær og hálfa mínútu á Þrekmeistaranum.
Pálmar Hreinsson er íþróttakennari að mennt. Hann er ennfremur þjálfari í World Class Austurstræti og hefur starfað við kennslu við framhaldsskólann í Grafarvogi þar sem hann kennir stærðfræði. Einhversstaðar finnur hann einnig tíma til að spila fótbolta með Aftureldingu í fyrstu deildinni. Pálmar bætti íslandsmetið í Þrekmeistaranum um tvær og hálfa mínútu vildum við því reyna að fá uppskrifina að afrekinu hjá þessum sannkallaða þrekmeistara.

 

Varstu búinn að æfa brautina sérstaklega á æfingu?
Ég er búinn að taka brautina af og til og þar af tvisvar sinnum nú í vor. Tíminn sem ég náði þar var mjög svipaður og í keppninni. Raunverulega finnst mér að ef maður leggur smá metnað í uppseturnar þá er erfiðasta hindrunin yfirstigin. Síðan passaði ég mig á því að hafa æfingabrautina heldur erfiðari en sjálfa keppnisbrautina. Ég var engan veginn sáttur við hvernig ég kláraði bekkpressuna þar sem ég þurfti nokkrar atrenur til þess að klára hana.  Þannig á það ekki að vera og tel ég að keppnispressan hafi haft þar sitt að segja.
Það þarf að fara mjög taktíst í brautina. Sú grein sem reynist mér hvað erfiðust er róðurinn.  Ef ég keyri púlsinn of hátt þar þá er ég í tómu basli það sem eftir er þrautar.

 

Áttu von á að geta bætt tímann enn betur?
Ég á eitthvað inni. Ef ég fer niður fyrir 16 mínútur er ég nokkuð sáttur. Ef ég legg mig fram við að taka nokkrar æfingar á þessu, þá held ég að það gerist. Ég tel mig geta gert betur á brettinu vegna þess að í liðinni keppni vissi ég þegar ég kom á brettið að ég hafði forskot á Lárus og lagði mig því kannski ekki eins mikið fram og annars, vitandi það að ég átti eftir að fara í gegnum liðakeppnina. Bekkpressan á auk þess ekki að taka nema 30 til 40 sekúndur en nú var ég 70 sekúndur með hana.

 

Er stefnan að keppa í haust?
Já, ég geri ráð fyrir því að ég komi sterkur í haust. Þetta er skemmtileg keppni og þörf. Það er mikilvægt fyrir allt þetta fólk inni á líkamsræktarstöðvunum að hafa eitthvað til að stefna að.  Keppnin á eftir að vaxa töluvert á komandi misserum og þeir tímar sem nú eru komnir verða margbættir.

 

Hvaða eiginlegum þarf góður keppandi að búa yfir?
Menn þurfa að vera í góðu alhliða formi. Það er ekki nóg að lyfta 150 kg í bekkpressu og ekki heldur nóg að geta hlaupið 5 km á 15 mínútum.  Helst þarf að geta sameinað þetta.  Keppandi sem ætlar að klára brautina þarf ekki að vera neitt sérstaklega sterkur, en til að geta klárað bekkpressuna með einhverri sæmd þarf hann að geta tekið eitthvað yfir 100 kg í hámarksátaki. Svo er þetta spurning um að menn geti starfað lengi í mikilli mjólkursýru. Þar kemur sér vel í mínu tilfelli að koma úr einhverju boltasporti þar sem púlsinn er meira og minna í 90% af hámarki.

 

Hvernig var liðsþjálfuninni háttað?
Tilkoma þess að við ákváðum að vera með lið nú var sú að Gunnar Már Sigfússon fyrrum íslandsmeistari í fitness skoraði á mig að mæta með lið gegn liði hans sem ég kýs að kalla “landsliðið í fitness”, eða “súkkulaðistrákana”. Svo gugnuðu þeir því miður á þessu. Vonandi mæta þeir bara næst og ég efast ekki um að þeir geri það. Þá er ætlunin að klekka á þeim og eins þeim Nöldur og nagg mönnum sem unnu núna með glæsibrag.
Liðakeppnin er skemmtileg og hún byggir á allt öðrum hlutum en einstaklingskeppnin. Þar geta allir fundið sér einhverjar tvær greinar og náð fínum árangri.  Á þessum mótum sem ég hef mætt á hef ég séð að það eru að mæta til leiks vinahópar úr líkamsræktarstöðvunum sem taka í leiðinni gott helgarfrí með öllu því besta sem Akureyri hefur upp á að bjóða.  Við eigum vonandi eftir að sjá mikla fjölgun svona hópa, enda um stórskemmtilega uppákomu að ræða.