SkarphéðinnSkarphéðinn Haraldsson hefur náð miklum árangri í líkamsrækt og hefur lést mikið. Hann er gott dæmi um mann sem hefur sigrast á aukakílóunum og snúið sínu lífi við. Hann fór norður til að keppa á Þrekmeistaranum eftir tiltölulega skamman undirbúning og hafði sett sér það að markmiði að komast í gegnum brautina en þeir sem það hafa gert vita að í einstaklingskeppninni er það afrek út af fyrir sig. Það fór svo að Skarphéðinn strandaði í magaæfingu sem hefur fram til þessa reynst erfiðasta hindrunin í brautinni og flestir sem hafa ekki klárað brautina hafa hætt í henni. Fyrir Skarphéðinn var þessi árangur þó mikill persónulegur sigur og enginn beigur er í honum þar sem hann hefur á undanförnum tveimur árum snúið lífi sínu við með því að losna við meira en 50 kíló þegar mest var. Fitnessfréttir tóku létt spjall við Skarphéðinn að loknum Þrekmeistaranum til þess að heyra sögu þessa manns sem getur verið hvatning til þeirra sem eru í dag í svipuðum sporum og hann var fyrir tveimur árum.

Varstu búinn að stefna lengi á Þrekmeistarann?
Ég byrjaði fyrir þremur til fjórum vikum að undirbúa mig. Það sem mér þótti erfiðast í brautinni voru armbeygjurnar og svo uppstigið. Það fór rosaleg orka í það. Á eftir kemur síðan magaæfingin sem er tæknilega erfið í framkvæmd. Þessar æfingar eru nokkurs konar hóll í keppninni sem komast þarf yfir. Þó ég hafi ekki klárað brautina, þá kom ég hingað til að afla mér reynslu og tækni og vita hvar ég stend. Nú veit ég hvað ég þarf að gera og ætla að æfa og æfa.

Nú hefur þú lést mikið  hvernig fórstu að því?
Það byrjaði fyrir tveimur árum þegar ég var rúmlega 130 kg. Ég þurfti að fara í kviðuppskurð eftir að hafa slitið á mér kviðinn mjög ílla. Læknirinn sagði mér þá að ég mætti ekki lyfta meira en 25 kílóum en ég gat ekki hugsað mér að verða að einhverjum aumingja. Það var á þeim tímapunkti sem ég sá auglýsingu frá Gauja Litla og ákvað að prófa að fara í einn tíma til hans. Þetta var góður tími en þegar heim var komið var blóðþrýstingurinn í rugli og þá ákvað ég að ekki yrði aftur snúið. Næstu sex mánuði var ég hjá Gauja Litla og missti 30 kíló. Eftir það fór ég að æfa sjálfur inni í sal í World Class og er búinn að vera þar í eitt og hálft ár. Á þessu tímabili fór ég á einkaþjálfaranámskeið og var sjálfur með einkaþjálfun á tímabili.

Hvað ertu búinn að léttast mikið á þessu tímabili?
Ég fór úr þessum 130 kílóum niður í 77 á tímabili en síðan er ég búinn að vera að byggja mig upp og er 88 kíló í dag. Þetta eru því hátt í 50 kg sem ég hef losnað við.

Hvað skiptir mestu máli við að ná að léttast svona mikið?
Það sem fólk þarf að gera er að setja sér markmið. Bæði skammtímamarkmið, miðtímamarkmið og langtímamarkmið. Skrifa þau niður, standa við þau og hafa í huga orðin, ég get, ég vil, ég ætla, ég skal. Þarna þarf ákveðni og sjálfsaga en fyrsta markmiðið er erfiðast. Þegar komið er yfir það er annað svo auðvelt. Svo verða menn að hafa gaman af þessu, annars gengur það ekki. Mann á ekki að kvíða fyrir að fara í ræktina, heldur á mann að hlakka til. Ef sett er 5 kílóa markmið og þú nærð því, þá er þetta orðið gaman. Þá veistu hvað þú getur. Fyrst þegar ég fór til Gauja Litla setti ég mér það markmið að ná 12 kílóum. Þau fóru og þá setti ég mér það markmið að ná 8 kílóum, þau fóru og þá setti ég mér það markmið að ná 10 kílóum og þau fóru líka.

Ætlarðu að stefna á næsta Þrekmeistara?
Að sjálfsögðu. Ég læt þetta ekki stoppa mig  kemur ekki til mála. Ég fer núna í það að laga það sem þarf að gera betur og fæ örugglega góða aðstoð við það frá félögunum í World Class.