Viðtal við Gauja litla

Félagasamtök feitra voru stofnuð fyrir fjórum árum síðan. Markmið félagsins var að gæta hagsmuna feitra. Einn af stofnendum félagsins var Gauji litli, öðru nafni Guðjón Sigmundsson. Gauji litli sem varð heimsfrægur á einni nóttu á Íslandi eftir að losað sig við fjölda aukakílóa í beinni útsendingu, hefur látið mikið að sér kveða síðan. Hann hefur haldið fjölda námskeiða og unnið að því hörðum höndum að hvetja þá sem eru í sömu sporum og hann var til þess að taka á sínum málum. Ennfremur hefur hann unnið ötullega að því að efla barna- og unglingastarf á þessu sviði. Fitnessfréttir tóku Gauja litla tali til þess að forvitnast um Félagasamtök feitra.

Hvert er markmið Félagasamtakra feitra?

Það er að vinna að réttindamálum, tryggingamálum og svokölluðum eineltismálum feitra í þjóðfélaginu. Þeir sem eru feitir fá t.d. ekki sjúkra- og slysatryggingu. Ef einstaklingur grennir sig og sýnir fram á árangur, þá er honum samt refsað í eitt ár með hærri iðgjöldum vegna þess að tryggingakerfið virðist hafa sjónarmiðið “einu sinni aumingi, alltaf aumingi”.

Er hið opinbera að taka rétt á offituvandamálinu?

Hið opinbera er ekki að taka á offituvandamálinu. Menn eru samt sammála um að offita sé eitt stærsta heilbrigðisvandamálið í heiminum í dag og fari vaxandi. Það eru allir sammála um að það sem sporni gegn þeirri þróun séu forvarnir. Það gerir hinsvegar enginn neitt. Það er kannski vegna þess að það vantar aðferðir. Ég er einn af fáum sem hef verið að þróa síðastliðin fjögur ár barna- og unglingastarf. Ég er líka einn af fáum í Evrópu sem hefur gert mjög víðtæka rannsókn á áhrifum hópmeðferðar á líkamsástand barna. Upplýsingar um rannsóknina er að finna á vefsíðunni minni sem er gauilitli.is.  Það er mjög erfitt að eiga við feit börn og unglinga vegna þess að það er hætta á að ef ekki er rétt að staðið þá leiðist þau í anorexíu og búlimíu. Það þarf að umgangast þau af mikilli tilfinningu, virðingu og beita tiltölulega litlum áróðri. Það þarf fyrst og fremst að vinna með sjálfsmynd barnanna og byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Þessa dagana er ég að undirbúa námskeið sem hefjast í haust fyrir börn og unglinga sem taka mið af þessu. Ég hef verið með börn á aldrinum 7 til 12 ára og unglinga á aldrinum 13 til 16 ára.  Hvert er helsta hagsmunamál feitra í dag? Það sem við þyrftum að fá eru stöðugildi hjá hinu opinbera. Þannig væri hægt að vinna markvisst að fræðslu- og forvarnarmálum og einnig meðferðarmálum. Við þurfum að líta á þetta sem sjúkdóm og meðhöndla hann sem slíkan. Það gengur ekki að ætla að afgreiða þetta sem ístöðuleysi, leti, aumingjagang, óhemjugang í fæðuneyslu eða þar fram eftir götunum. Það þýðir ekki að segja bara, ”hreyfðu þig meira og borðaðu minna”. Það þarf að taka á þessu vandamáli strax markvisst og marka stefnu í þessum málum, núna strax. Ef feitir hefðu þó ekki væri nema eitt og hálft stöðugildi hjá hinu opinbera væri það mikil framför. Það deyja fleiri úr offitu og tengdum sjúkdómum í heiminum í dag heldur en úr krabbameini, samt er ekkert gert sem markvisst getur talist.