Vísindamenn deildu lengi vel um það hvort æfingahormónið írisín væri yfir höfuð til eða ekki. Þessar deilur hafa nú verið lagðar á hilluna eftir að birt var grein í vísindaritinu Cell Metabolism sem sannar að hormónið er ekki ímyndun, það er til í mönnum. Framleiðsla þess stjórnast af æfingum og vöðvaátökum.

Hormónið uppgötvaðist 2012 og þótti spennandi vegna þess að vísindamenn töldu sig hafa fundið helstu ástæðu þess að æfingar stuðla að vellíðan og heilbrigði. Samkvæmt rannsóknum á músum voru merkjanlegar framfarir í efnaskiptum í takt við hækkun írisíns hormónsins í blóðinu.

Samkvæmt rannsóknum sem Yuan Zhang við Flórídaháskóla eykur írisín hormónið genavirkni sem tengist vöðvavexti og á þátt í að breyta hvítri fitu í dekkri og hitamyndandi fitu eins og drapplituðu fituna sem er þeim eiginleikum gædd að geta losað okkur við fituforðann í formi hita.

Í öðrum rannsóknum hefur komið í ljós að írisín hefur jákvæð áhrif á blóðsykurstjórnun með því að draga úr insúlínviðnámi. Írisín eykur magn IGF-1 sem er vefaukandi hormón og dregur úr virkni myostatín gensins sem takmarkar vöðvavöxt. Það eykur líka orkueyðslu sem hefur þær gleðilegu aukaverkanir að draga úr fitusöfnun. Enn deila vísindamenn þó um gildi þessa hormóns sem hefur fengið viðurnefnið „æfingahormónið“.

Magn írisín hormónsins mælist mjög mikið í feitum dýrum og mönnum og þar af leiðandi er möguleiki að fitufrumurnar gefi frá sér írisín í þeim tilgangi að koma jafnvægi á fituefnaskipti. Írisín er þannig hugsanlega mælikvarði á óregluleg efnaskipti eða er mikilvægt hormón sem felur í sér marga af kostum hreyfingar og líkamsræktar.
(American Journal Physiology – Endocrine and Metabolism, vefútgáfa 19 júlí 2016)