img_0719_2448-x-3264Karen Lind Thompson módelfitnesskeppandi og Ríkharður B. Snorrason kraftlyftingarmaður eiga von á sínu fyrsta barni. Þau búa í Grafarvogi en við báðum Karen að gefa okkur innsýn í þær breytingar sem meðgangan hefur haft fyrir hana.

Hvernig ertu að æfa í dag?

Eins ömurlegt og það getur gerst að þá er ég því miður ekkert að æfa í dag. Ég þurfti að leggja niður allar æfingar og álag eftir 25 viku meðgöngunnar og vinna að því að halda barninu inni þar sem drengurinn er eitthvað búin að vera að reyna að flýta sér til okkar. Verandi manneskja sem að æfir 5-13x í viku að þá hefur það verið gríðarlega erfitt að hafa nægan tíma en mega svo ekki stíga inní líkamsræktarstöð.

Hvernig breyttirðu æfingunum þegar þú varðst ólétt?

Fram að 25 viku þegar að ég mátti æfa að þá breytti ég voða litlu. Ég tók lengri og rólegri upphitun og lyfti voða líkt og venjulega en passaði líka sérstaklega uppá álagið á bæði mjóbak og mjaðmasvæði ásamt því að sleppa öllum kviðæfingum. Ég var því miður einnig svo óheppin að fá brjósklos í bakið í byrjun árs svo að ég neyddist til þess að fara að extra varlega þegar að ég komst aftur af stað að æfa.

14359630_10157390649510153_309509749_o_750-x-1334Fannstu mikinn mun á æfingagetu?

Eftir því sem leið á meðgönguna fóru ýmsar æfingar að verða erfiðari en áður. Eftir því sem kúlan stækkaði meira og meira því erfiðara og kannski skrýtnari urðu sumar hreyfingarnar. Ég fór líka sjálf að finna ég mætti ekkert vera að leggja eins mikið álag á líkamann og ég var vön.

Breyttirðu mataræðinu?

Haha já það tók svolitlum stakka skiptum í byrjun. Ég fékk alveg svakalega morgunógleði fyrstu 3 mánuðina og staðan varð þannig að öll næring varð góð næring svo það var borðað allt sem ég hafði lyst á hverju sinni. Svo að fyrstu 3 mánuðirnir voru mjög skrautlegir en svo róaðist þetta niður og maður gat farið að borða hollt og skipulagt sig aftur. Annars hef ég verið heppin með það að aðal „cravings“ þörfin hjá mér hefur verið í ávexti og papriku og endalaust kakómalt en ég þurfti hvort eð er að bæta aðeins í mjólkurneysluna.

Ertu búin að þyngjast mikið?

Ó þessi elsku vigt haha… Ég er búin að þyngjast um 15-16 kg. Ég viðurkenni það alveg að mér stóð ekki á sama eftir fyrstu 10 kg þar sem ég hélt að ég myndi ekkert þyngjast meira en það. En þar sem þessi blessuðu kíló sitja nú mestmegnis bara á bumbunni á mér að þá hefur mér verið nokkuð sama. Þetta er bara tímabil og þar sem að ég hef æft af miklum krafti síðastliðin ár og líkaminn er með svo sterkt vöðvaminni að þá hef ég litlar áhyggjur af því að ná ekki einhverjum örfáum auka kílóum af mér. Skiptir mig meira máli að barnið verði heilbrigt og fái næga næringu frekar en að ég nái að halda mér á einhverjum stað á vigtinni.

_bag9980_2101-x-3157Hvernig leggst mömmuhlutverkið í þig?

Ég er alveg ótrúlega spennt fyrir þessu nýja hlutverki. Kemur líka á svo góðum tíma þar sem ég var orðin tilbúin í að hvíla mig aðeins á sportinu og leggja kraftana í eitthvað annað. Við erum bæði svo mikið íþróttafólk og alltaf lagt okkur 100% fram í sportinu okkar svo við erum virkilega spennt fyrir þessu nýja verkefni.