Íslendingar hlutu tvö gull, tvö silfur og eitt brons á Norðurlandamóti alþjóðsambands líkamsræktarmanna um helgina. Magnús Bess Júlíusson og Kristján Samúelsson urðu norðurlandameistarar í sínum flokkum en Magnús keppti í undir 100 kg flokki í vaxtarrækt og Kristján í fitness.Kristján Samúelsson kom sá og sigraði í fitnessflokki karla. Einhugur var meðal dómara um að hans væri gullið, sem sýnir hversu sterkur keppandi hann er í þessari vinsælu keppnisgrein. Ellefu keppendur voru í hans keppnisflokki en það var André Thesen frá Noregi sem hafnaði í öðru sæti og Imre Vähli frá Eistlandi hafnaði í því þriðja. Þeir Stefán Þór Arnarsson og Evert Víglundsson komust ekki áfram í úrlit sex efstu, en Stefán varð í sjöunda sæti og var því að banka á dyrnar í úrslitunum og Evert hafnaði í níunda sæti.
Freyja Sigurðardóttir varð önnur í fitnessflokki kvenna. Keppnin í hennar flokki var mjög jöfn í efstu sætunum en Freyja er í frábæru formi og þessi árangur hennar er frábær, ekki síst í ljósi þess hveru gríðarlega sterkir keppendur það voru sem hún keppti við. Sigurvegari í hennar flokki var Tea Havstein Eriksen frá Noregi en þriðja varð Stina Telhammar frá Svíþjóð. Tea Havstein Eriksen keppti síðan við Jorun Steine um heildartitil í fitness sem hún vann og fagnaði mjög eins og sést á myndinni.
Í fitnessflokki kvenna eldri en 35 ára sigraði Jorun Steine frá Noregi. Jorun sem fram til þessa hefur keppt í vaxtarrækt skipti þarna um gír og hafði greinilega undirbúið sig fyrir keppnina með það að leiðarljósi að draga úr vöðvamassanum og skurðunum sem fylgja vaxtarræktinni og var í mýkra formi sem vel á heima í fitnesskeppni kvenna. Önnur varð Sheila Zeinali frá Svíþjóð og þriðja Hanne Bache-Mathiesen Henriksen frá Noregi. Þar á eftir komu íslendingarnir Anna Bella Markúsdóttir og Kristín Kristjánsdóttir í fjórða og fimmta sæti.
Keppt er í upptogi, dýfum og 500 m róðri og samanburði í íþróttafitness karla. Í dómum gilda æfingarnar helming á móti samanburðinum. Þrír íslendingar kepptu í þessari keppnisgrein, þeir Kristján Kröyer, Arnar Grant og Sigurkarl Aðalsteinsson. Sigurkarl hóf keppnina á því að meiðast á öxl og átti því erfitt uppdráttar eftir það, en svo fór að Kristján Kröyer hafnaði í þriðja sæti og Arnar Grant í því fjórða. Kristján mætti þarna í sínu besta formi og á greinilega framtíðina fyrir sér í þessari íþróttagrein.
Það var hin danska Lonnie Boe Pedersen sem sigraði íþróttafitness kvenna. Önnur varð Áslaug Lia Pettersen frá Noregi og þriðja varð Madeleine Elisabeth Wessman frá Noregi. Íslendingunum gekk nokkuð vel í þessum keppnisflokki, en Elín Ösp Sigurðardóttir varð fjórða, Björk Varðardóttir fimmta og Elín Leósdóttir sjötta. Myndir eru væntanlegar í myndasafnið hér á fitness.is.