Kristín Kristjánsdóttir
Kristín Kristjánsdóttir á sviðinu í Aþenu.

Í dag varð Kristín Kristjánsdóttir heildarsigurvegari í fitness á Ben Weider Diamond Cup mótinu sem fram fór í Aþenu í Grikklandi og var í kjölfarið boðið svonefnt atvinnumannakort (ProCard). Kristín er því annar íslendingurinn sem á kost á því að gerast atvinnumaður hjá IFBB, alþjóðasambandi líkamsræktarmanna en Margrét Gnarr fékk fyrr á árinu atvinnumannaréttindi eftir að hafa orðið heimsmeistari. Mótið í Aþenu sem fór fram í dag er eitt örfárra móta þar sem heildarsigurvegara bjóðast atvinnumannaréttindi. Þeir eru ófáir íslensku fitnesskeppendurnir sem ganga með þann draum í maganum að gerast atvinnumenn en þrátt fyrir þátttöku okkar bestu keppenda á alþjóðlegum mótum á undanförnum árum eru þær Kristín og Margrét Gnarr þær einu sem hafa náð þessu markmiði og þá í sitthvorri keppnisgreininni – Margrét Gnarr í módelfitness og Kristín í fitness.

Þessi sigur Kristínar er sérstaklega eftirtektarverður í ljósi þess að hún keppti í opnum flokki allra aldursflokka en ekki í flokki 45 ára og eldri eins og hún hefur oftast gert. Kristín er 47 ára.  Þessi stórsigur er því einstaklega ánægjulegur fyrir Kristínu sem fyrir vikið fer á spjöld líkamsræktarsögunnar hér á landi sem og víðar. Hún keppti fyrst í undir 163 sm flokki sem hún sigraði og keppti að því loknu við sigurvegara í öðrum flokkum sem hún sigraði einnig og varð því heildarsigurvegari mótsins. Ben Weider Diamond Cup er kennt við sjálfan Ben Weider sem stofnaði alþjóðasamband líkamsræktarmanna ásamt bróður sínum Joe Weider. Þeir bræður stofnuðu fyrirtæki í eigin nafni sem varð stórveldi í líkamsræktarheiminum en Arnold Schwartzenegger hefur sagt þá bræður hafa komið sér í föðurstað enda voru það þeir sem fengu hann til að flytjast til Bandaríkjana á sínum tíma.

Í kjölfar sigursins bauð Rafael Santonja forseti IFBB, alþjóðasambands líkamsræktarmanna Kristínu atvinnumannakort og fullyrti að betri fulltrúa þessarar íþróttar væri erfitt að finna.  Kristín hefur á undanförnum árum margoft orðið Íslandsmeistari og Bikarmeistari auk þess sem hún varð Evrópumeistari á síðasta ári. Það þarf því ekki að kynna hana og afrek hennar fyrir áhugafólki um líkamsrækt en sigurinn um helgina er tvímælalaust hátindur hennar ferils sem hugsanlegt er að stefni inn á braut atvinnumennsku á erlendri grundu með öllum þeim tækifærum sem því fylgir.

KristinKristjansdottir1
Rafael Santonja forseti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna og Kristín Kristjánsdóttir.
KristinKristjansdottir2
Kristín er fyrst íslendinga til að geta orðið atvinnumaður í fitness. Margrét Gnarr varð fyrr á árinu fyrsti atvinnumaðurinn okkar í módelfitness.
KristinKristjansdottir3
Tekið í Aþenu um helgina. Kristín er í feikna formi eins og sjá má.
Kristín Kristjánsdóttir
Kristín Kristjánsdóttir. Ljósm: Brynjar Ágústsson.
Kristín Kristjánsdóttir
Kristín Kristjánsdóttir. Ljósm: Brynjar Ágústsson.
Kristín Kristjánsdóttir
Kristín Kristjánsdóttir. Ljósm: Brynjar Ágústsson.