Fyrirfram var búist við harðri keppni í formfitness þar sem þarna er um að ræða nýja keppnisgrein og þátttakan var mjög góð. Óhætt er að segja að allir keppendur hafi komið vel undirbúnir og margir hverjir efnilegir. Hvað dómgæslu varðar eru svolítið aðrar áherslur í formfitness heldur en íþróttafitness að því leiti að ekki eru gerðar jafn miklar kröfur um skurði og dómarar eru frekar að leita að samræmi í formi og áhersla er lögð á útlínur og fegurð keppanda. Vöðvamassi má ekki vera of mikill, en engu að síður eru dómarar ekki að leita að fallegum náttúrulegum vexti, heldur öllu frekar fallegum áunnum vexti sem tilkominn er vegna þjálfunar og æfinga. Sif Garðarsdóttir sem sigraði í formfitness mætti til keppni vel undirbúin eftir að hafa tekið sér árs hlé frá keppni vegna barneigna. Sif hefur aldrei verið í jafn góðu formi og á Íslandsmótinu og er vel að því komin að vera fyrsti Íslandsmeistarinn í formfitness. Fyrirfram voru vangaveltur á milli dómara um áherslu á vöðvamassa í dómgæslunni og vissulega er Sif komin á brún þess sem þolanlegt er hvað vöðvamassa snertir í formfitness. Sérstaklega eru axlirnar á henni orðnar miklar. Hinsvegar verður að hafa í huga að hérlendis hefur fram til þessa ekki verið til neitt sem kallast getur of mikill vöðvamassi, né of miklir skurðir í fitnesskeppnum þegar erlendir staðlar eru hafðir til hliðsjónar. Efstu keppendurnir á Íslandsmótinu í fitness halda líklega til keppni á erlendum vettvangi og þá gildir að markið sé sett hátt. Hörð keppni var á milli Sifjar og Sólveigar Thelmu Einarsdóttur sem hafnaði í öðru sæti og Önnu Bellu Markúsardóttur sem hafnaði í því þriðja. Sólveig er mjög efnileg og á sér helst þann veika punkt að þurfa að bæta bakið, en að því bættu gæti hún orðið mjög sterkur keppandi á erlendri grundu. Þegar dæmt er í fitness eru dómarar ekki að gefa keppendum mínus fyrir einstaka veika punkta í líkamanum eins og gert er í vaxtarrækt, nema til komi að þessi veiki punktur hafi talsverð áhrif á heildarsvip keppandans. Erlendis hafa þeir keppendur komist lengst sem hafa sýnt fram á besta samræmið sem felur í sér hóflegan vöðvamassa. Misjafnt er á milli keppenda hversu mikinn vöðvamassa þeir þurfa til þess að ná því samræmi sem leitað er að. Bygging keppenda er misjöfn og sumir keppendur þurfa ekki mikinn vöðvamassa til þess að ná þeirri byggingu sem leitað er að á meðan aðrir þurfa mikinn vöðvamassa til þess. Það sem gjarnan einkennir keppendur erlendis er að þegar þeir eru á sviði virka þeir gjarnan talsvert vöðvamassaðir, en þegar nær er komið eru þeir í raun mjög nettir, en með afar gott samræmi og góða skurði sem ýkja allar vaxtarlínur.  Þar af leiðandi þurfa sumir keppendur ekki að vera mjög vöðvamassaðir til þess að ná langt. Í íþróttafitness kvenna voru ekki nema þrír keppendur að þessu sinni sem sýnir betur en annað hvaða áhrif það hefur haft að taka upp formfitness sem nýjan keppnisflokk. Þó keppendurnir hafi ekki verið fleiri voru þeir þó allir mjög vel undirbúnir. Heiðrún sem sigraði flokkin var ekki jafn skorin og hún hefur verið upp á sitt besta, en engu að síður hefur hún greinilega bætt á sig vöðvamassa á réttum stöðum sem skilaði sér í góðu samræmi og frammistaða hennar í hindranabraut og danslotu skilaði henni í fyrsta sætið. Danslota Heiðrúnar var að venju mjög lífleg og áminnti áhorfendur og áhugamenn um fitnesskeppnir hve skemmtilegt getur verið að horfa á dansloturnar og því söknuður að því sjá ekki fleiri keppendur mætta í þennan flokk. Una Dóra Þorbjörnsdóttir varð í fyrsta sæti í samanburðinum, enda mætti hún geisilega vel undirbúin til keppni og sýndi fram á mjög miklar bætingar frá síðasta ári. Una samræmir sér afar vel og var mjög vel skorin. Gallar í henni eru fáir og ekki annað að sjá en að þarna fari framtíðarkeppandi. Fróðlegt væri að sjá hvernig Unu myndi ganga á erlendri grundu þar sem hún hefur þá nettu byggingu sem sýnt hefur sig að hafi náð langt erlendis. Una hafnaði í öðru sæti í danslotunni á eftir Heiðrúnu en helst var að danslota Unu skorti öryggi í framkvæmd þar sem skorti á að hún kláraði hreyfingar og æfingar sem hún reyndi að gera. Karlarnir Allir keppendur í karlaflokki voru vel undirbúnir og röðun í efstu sætin í samanburði var engan vegin augljós. Sigurbjörn Ingi Guðmundsson hefur líklega aldrei verið í betra formi og var vel undirbúinn en fékk keppni úr óvæntri átt. Þar kom til Sigurður Örn Sigurðsson sem var að keppa í fyrsta skipti og einnig var Bjarni Steinar Kárason í toppbaráttunni. Sigurbirni gekk vel í æfingunum og hafði því sigur að lokum enda sigrar gjarnan sá sem stendur sig best að meðaltali í öllum æfingunum.