Ný keppnisgrein á Íslandsmótinu

Um næstu helgi verður haldið Íslandsmót IFBB í fitness í Íþróttahöllinni á Akureyri. Keppnin sem er orðinn fastur liður um Páskana á Akureyri er hápunktur þessara keppna hér á landi.
Konur keppa í nýjum keppnisflokki sem nefnist formfitness að þessu sinni, en af þátttöku keppenda að dæma í þeim flokki er ljóst að mikil barátta verður í þeim flokki. Í formfitness er keppt í þremur lotum sem allar byggja á samanburði í bikini og sundbolum.  Margir af bestu keppendum landsins mæta til þess að berjast um Íslandsmeistaratitlana en í karlaflokki þarf Sigurbjörn Guðmundsson að verja titil sinn. Búist er ennfremur við harðri baráttu í kvennaflokki.

Í samræmi við reglur IFBB alþjóðasambandsins verður keppnin lyfjaprófuð. Fram til þessa hafa sigurvegarar í karla- og kvennaflokkum verið lyfjaprófaðir og verður svo áfram. Lyfjaprófin sem framkvæmd eru á þessum mótum eru líklega viðamestu lyfapróf í stakri keppnisgrein hér á landi, en tilgangurinn er að sýna fram á að menn þurfi ekki að nota ólögleg lyf til þess að ná góðum árangri í þessari vaxandi keppnisgrein. Síðar á þessu ári munu taka gildi reglur um takmarkanir á þyngd keppenda miðað við hæð í karlaflokki, en sú regla er til þess að sporna við þeirri þróun að keppendur verði of vöðvamassaðir og að þessi keppnisgrein þróist yfir í vaxtarrækt.

Síðar á þessu ári munu einhverjir keppendur halda á heimsmeistaramót IFBB í fitness sem haldið verður á Spáni.

Forkeppnin hefst á föstudag kl 17.00 en þá fara karlar í gegnum upptog og dýfur og samanburð og konurnar fara eingöngu í gegnum samanburð.

Sjálf úrslitakeppnin hefst síðan kl 17.00 á laugardag. Húsið opnar kl 16.00 báða dagana.