Um næstu helgi verður haldið tvöfallt heimsmeistaramót IFBB í Búdapest í Ungverjalandi. Þangað halda þau Sigurður Gestsson sem mun keppa í mastersflokki í vaxtarrækt og Heiðrún Sigurðardóttir mun keppa á Miss Fitness Model World.Búist er við keppendum frá 40 þjóðum á keppnina sem fer fram dagana 18 – 20. nóvember. Ætla má að vel á annað hundrað keppendur mæti til keppni bæði í fitness og vaxtarræk og er þetta því stærsta mót sinnar tegundar á árinu. Sigurður sem hóf keppni aftur eftir 14 ára hlé er í dag í sínu besta formi og kemur til með að standa í ströngu á heimsmeistaramótinu, enda mæta þar margir frábærir keppendur. Hann hefur verið í stöðugum framförum síðustu mánuði og það verður spennandi að fylgjast með gengi hans á heimsmeistaramótinu. Á síðasta heimsmeistaramóti hafnaði Heiðrún í 14 sæti af 34 sem verður að teljast með besta árangri sem íslenskur keppandi hefur náð, enda eru allir keppendurnir sem bítast um heimsmeistaratitilinn sigurvegarar í sínu heimalandi. Einar Guðmann alþjóðadómari mun halda utan og verða jafnframt augu og eyru Fitnessfrétta og flytja myndir og fréttir af mótinu við fyrsta tækifæri.