Um síðustu helgi keppti vaxtarræktarkappinn Sigurður Gestsson í svokölluðum meistaraflokki á heimsmeistaramótinu í Vaxtarrækt. Keppnin var haldin í Búdapest í Ungverjalandi og voru 210 keppendur frá 37 löndum að keppa í ýmsum flokkum.Í flokki Sigurðar voru tæplega 30 keppendur og komst hann ekki í úrslit í flokknum enda keppnin mjög hörð í flokknum. Margir af flottustu keppendum heimsins voru mættir þarna til keppni og var því spennandi að fylgjast með mótinu. Sigurður hefur verið að æfa stíft undanfarna mánuði og náð miklum bætingum og stefnir hann á frekari keppni næsta vor. Að sögn Sigurðar var þátttakan á þessu heimsmeistaramóti mjög fróðleg og gott innlegg í markmiðasetningu hans fyrir komandi mót. Hann keppti þarna í undir 80 kg flokki en segist líklega stefna á að keppa í næsta þyngdarflokki fyrir ofan á næsta ári ef allt gengur upp. Keppnin í Búdapest er haldin á vegum IFBB vaxtarræktarsambandsins sem er stærsta og nánast eina alþjóðasambandið í vaxtarrækt, enda er meirihluti keppenda í vaxtarrækt í heiminum í dag að keppa hjá IFBB.