Heiðrún Sigurðardóttir náði sínum besta árangri á alþjóðlegu móti í fitness nú um helgina á Oslo Grand Prix móti þar sem hún hafnaði í öðru sæti. Keppendur víðsvegar frá Evrópu taka þátt í mótinu sem fyrir vikið er mjög sterkt mót.Um síðustu helgi keppti Heiðrún á samskonar Grand Prix móti sem fram fór í Danmörku og hafnaði þar í fjórða sæti. Keppnirnar voru báðar mjög jafnar á milli efstu keppenda, enda fór svo Nina Jeanette Furseth sem sigraði á því móti varð þriðja á eftir Heiðrúnu á Oslo Grand Prix. Sigurði Gestssyni og Magnúsi Bess kepptu í vaxtarrækt og gekk ágætlega. Magnús komst í fimm manna úrslit í sínum flokki og hafnaði í fimmta sæti og Sigurður hafnaði í sjötta sæti. Þessi árangur íslendingana á undanförnum mótum er afar ánægjulegur ekki síst í ljósi þess að þrátt fyrir að keppni í vaxtarrækt hafi hafist 1982 hérlendis, þá hafa Íslendingar aldrei verið virkari á alþjóðavettvangi í þessari keppnisgrein. Ástundun okkar keppenda á erlendum keppnum undanfarin ár er að skila sér í betri árangri sem fæst með þeirri reynslu og þekking sem það hefur í för með sér að taka þátt í þessum stóru mótum.
Fitnessíþróttin er mest vaxandi íþróttagreinin innan kvennaíþrótta í dag, enda kepptu hátt í 300 konur í fitness á síðasta heimsmeistaramóti IFBB. Það að Íslendingar séu að blanda sér í úrslitabaráttuna með vaxandi hætti er til marks um það hversu framarlega við stöndum í þessari íþrótt. Hérlendis hefur þessi íþrótt verið fremur afskipt af fjölmiðlum sem sjá lítið annað en boltaíþróttir, en það breytir því ekki að í samanburði við árangur landsmanna í öðrum íþróttagreinum á alþjóðavísu geta fitness- og vaxtarræktarkeppendur vel við unað. Fitnessfréttir óska Heiðrúnu til hamingju með þennan frábæra árangur.