Heiðrún Sigurðardóttir náði frábærum árangri um helgina á heimsmeistaramóti IFBB í fitness sem fram fór á Santa Susanna á Spáni. Heiðrún hafnaði í 10 sæti sem er frábær árangur í ljósi þess að um er að ræða heimsmeistaramót alþjóðasambands líkamsræktarmanna.Skipt er í fjóra hæðarflokka á heimsmeistaramótinu í fitness og keppti Heiðrún í flokki undir 168 sm. Í hennar flokki kepptu 34 keppendur en alls eru á þriðja hundrað keppendur frá 40 löndum sem keppa á HM í fitness og vaxtarrækt. Heiðrún sem alltaf er mjög vinsæl meðal ljósmyndara sem taka myndir á heimsmeistaramótinu fyrir stærstu líkamsræktartímarit heimsins. Eftir að ljóst var að hún náði þessum góða árangri var hún bókuð í fyrirsætustörf hjá öllum helstu timaritinum eins og Muschle and Fitness, Flex og fleirum.
Anna Bella Markúsdóttir keppti í öðrum hæðarflokki en Heiðrún og lenti þar í erfiðri keppni. Alls komast 15 keppendur áfram í sjálfa úrslitakeppnina en að þessu sinni komst Anna Bella ekki í þann flokk. Skemmst er að minnast þess að Anna Bella hafnaði í níunda sæti á síðasta ári á heimsmeistaramótinu. Íslenski hópurinn sem hélt utan á HM ætlar að slaka á á Benidorm í nokkra daga áður en haldið er aftur heim.