Þórey Edda Elísdóttir

Hún er ein af okkar fremstu frjálsíþróttakonum og hún er ein af þeim sem horft er til þegar við gerum okkur vonir um að koma okkar fólki á pall í erlendum keppnum í stangastökki. Árangur hennar innanhúss er sá sjötti besti í heiminum sem verður að teljast gott en hún er ekki aldeilis á því að leggja stöngina á hilluna og stefnir á bætingar á komandi keppnistímabili. Okkur lék forvitni á því að sjá hvernig hún hagar sínum æfingum og mataræði enda er hún í góðu formi.

Hvað varð til þess að þú fórst að æfa stangastökk?
Mín fyrsta æfing í frjálsum íþróttum var stangastökksæfing. Ég var að hætta í fimleikum og ásamt vinkonu minni sem var einnig að hætta fór ég á fyrstu stangastökksæfinguna. Vala Flosadóttir hafði þá verið að vinna Evrópumeistaramótið og okkur fannst framandi að stangastökk væri fyrir konur en vildum prófa eitthvað nýtt eftir að hafa verið 10 ár í ströngum æfingum í fimleikum. Við enduðum því á að fara á æfingu. Besti árangurinn hjá mér fram að þessu er 4,51 innanhúss og 4,45 utanhúss.

Hvernig er uppbyggingatímabilið hjá þér?
Á haustin stunda ég ólympískar lyftingar tvisvar í viku og hleyp spretti sem eru t.d. 5 x 300 m eða 6 x 150 m u.þ.b þrisvar í viku. Á uppbyggingatímabilinu kem ég yfirleitt ekki nálægt stönginni því þá er maður of þreyttur og þungur á sér. Ólympísku lyftingarnar virka vel á mig og gefa góða snerpu. Eggert Bogason hefur hjálpað mér með lyftingarnar en það er Kristján Gissurarson sem er aðal þjálfarinn minn og Ragnheiður Ólafsdóttir hjálpar okkur með að skipuleggja hlaupaáætlunina.

Nærðu að sinna þjálfun vel hér á landi?Já, ég hef reyndar ekki verið hér í nokkur ár en æfði hér síðasta haust og fannst það takast vel og kom vel út úr vetrinum fyrir innanhústímabilið. Aðstaðan á uppbyggingatímabilinu er ágæt en það er meiri fyrirhöfn að setja upp aðstöðuna í Kaplakrikanum þegar við ætlum að fara í stangastökkið sem er tvisvar í viku. Þá þarf að setja alla aðstöðuna upp og taka niður aftur. Það getur tekið talsverðan tíma á hverri æfingu.

Hversu oft æfirðu?
Í heildina yfir árið er ég að æfa sex sinnum í viku að jafnaði en getur verið misjafnt eftir því hvort ég er í uppbyggingu eða ekki.

Hvernig er mataræðið?
Mér finnst mjög gott þegar ég er að lyfta að hafa með mér próteindrykk og drekka hann fljótlega eftir æfingu. Á hlaupaæfingunum sem eru erfiðastar hef ég með mér kolvetnadrykki sem ég blanda úr dufti. Ég reyni að forðast þessa sykurleðjudrykki og tek alltaf fjölvítamín og C-vítamín. Ég hef ekki verið hrifin af kreatíninu því það hefur ekki farið vel í mig. Ég tók eftir því að þegar ég fór að borða það fór mér að líða illa á æfingum og hætti því að taka það.

Veistu hver fituprósentan er?
Hver hún er núna veit ég ekki en ég hef oft verði í kringum 12-13%. Reyndar fór ég einu sinni í fitumælingu í Bandaríkjunum og þar mældist ég 6,9% sem er örugglega ekki rétt mæling.

Á hvað ertu að stefna næsta árið?
Ég er að vonast til að komast á góð mót í Evrópu bæði innan- og utanhúss. Ef mér gengur vel ætti ég að komast inn á sterk mót. Evrópumeistaramótið verður síðan haldið fyrstu helgina í mars innanhúss og þangað stefni ég.