dietDrykkurGosColaÞað er satt og rétt að hitaeiningalausir diet drykkir innihalda engar hitaeiningar. Engu logið þar í flestum tilfellum. Tilkoma hitaeiningalausra drykkja á sínum tíma vakti vonir um að með tilkomu þeirra væri stigið mikilvægt skref í baráttunni við aukakílóin. Þessir diet-drykkir komu fram á sjöunda áratugnum á síðustu öld en þrátt fyrir það er ekki hægt að sjá annað en að offita hafi farið hraðvaxandi í hinum vestræna heimi.
Gerð var athyglisverð rannsókn við háskólann í Oita í Japan á músum sem sýndi fram á að blóðsykur hækkaði þegar þeim var gefið sætt vatn en þegar þeim var gefið vatn með næringar- og hitaeiningalausri gervisætu lækkaði blóðsykurinn. Þrátt fyrir það fitnuðu mýsnar sem fengu hitaeiningalausu gervisætuna. Magn leptíns og þríglyseríðs jókst sömuleiðis hjá þeim. Einnig þótti athyglisvert að virkni aftengingarprótína í brúnni fitu minnkaði sem varð til þess að efnaskipti urðu hægari sem stuðlaði að meiri fitusöfnun. Þessar niðurstöður sem eru afar athyglisverðar bætast við þær niðurstöður sem hafa ýtt undir þá kenningu að diet-drykkir valdi óbeint þyngingu. Það er ekki hitaeiningum frá þeim um að kenna, heldur óbeinum áhrifum þessara drykkja sem eiga sér enga hliðstæðu í náttúrunni.
(Metabolism Clinical and Experimental, 63: 69-78, 2014)