young bodybuilder traininig over balck background

Það þarf engum að koma á óvart að æfingar eru besta aðferðin til þess að losna við aukakílóin – sérstaklega til þess að losna við magafitu. Með æfingunum brennum við hitaeiningum sem annars hefðu safnast upp sem aukakíló til viðbótar við þau sem fyrir eru. Menn hafa lengi verið að leita að besta æfingakerfinu til þess að brenna fitu og á þessum vettvangi hafa margar rannsóknir verið gerðar. Ekki eru menn á eitt sáttir eins og gengur. Deilt er um hvort æfingálaga undir eða yfir ákveðnum mörkum brenni fleiri hitaeiningum þegar upp er staðið. Fita er aðal orkugjafi líkamans þegar álagið er undir 65% af hámarksálagi. Vandaðar rannsóknir sem gerðar hafa verið við Laval Háskólann í Kanada hafa sýnt fram á að erfiðar æfingar losa okkur við fleiri aukakíló en hóflegri æfingar. Aðrar rannsóknir hafa hinsvegar sýnt fram á hið gagnstæða. Í 12 vikna kóreskri rannsókn á fitubrennslu miðaldra kóreskra kvenna var ekki hægt að sjá neinn mun á áhrifum æfinga sem gerðar voru þrisvar í viku og byggðu á 70-75% álagi annars vegar og 40-50% álagi hinsvegar. Í báðum tilfellum var æfingum hætt þegar búið var að brenna 400 hitaeiningum. Bæði æfingakerfin virtust hafa sömu áhrif á fitubrennslu og áhættuþætti gagnvart hjarta- og kransæðasjúkdómum.

Bæði æfingakerfin höfðu þau áhrif að auka súrefnisupptöku um 11%, minnka fituþykktarmælingu um 12%, þríglyseríð um 23% og insúlín um 23%.

Ef við eigum að draga einhverja ályktun af þessum rannsóknum er hún líklega helst sú að mestu skipti að mæta í ræktina og æfa – hætta að sitja heima. Það hvernig við æfum verður alltaf smáatriði í umræðunni í samanburði við aðalatriðið sem er að stunda æfingar.

(International Journal Sports Medicine, vefútgáfa 4. Mars 2011)