Líkaminn notar aðallega kolvetni sem orkuforða þegar álagið fer yfir 70% af hámarksgetu í þjálfun. Við minna álag og í hvíld notar hann fyrst og fremst fitu sem forða. Breskir vísindamenn komust að því að þjálfun á 55-74% álagi af hámarksgetu var heppilegast til að brenna fitu á þrekhjóli. Ef álagið fer yfir þetta viðmið skiptir líkaminn nánast algerlega yfir í kolvetni sem orkugjafa.

Þessar niðurstöður þýða alls ekki að þjálfun á meira álagi muni ekki hjálpa þér að losna við aukakílóin. Erfið þjálfun eykur efnaskiptahraða líkamans þannig að þú brennir hitaeiningum í marga klukkutíma eftir að þjálfun lýkur. Ákafar æfingar hraða líka notkun fitu sem orku þegar líkaminn er að jafna sig í hvíld eftir æfingar.

Allar æfingar eru skref í áttina að fitubrennslu þegar þú borðar færri hitaeiningar en þú notar í efnaskipti og hreyfingu. Heppilegasta álagið til að brenna fitu er samt þegar upp er staðið hóflegt álag í æfingum.
(Med Sci Sports Exerc, 34: 92-97)