Gorgeir og stærilæti fylgja sumum meira en öðrum sem mæta í ræktina. Fyrr en varir eru allir mældir út frá sama mælikvarðanum. Hvað tekurðu í bekk? Þessi vinsæla æfing er orðin nokkurs konar mælikvarði á hraustleika og styrk. Líklegt er að fyrr en síðar prófi flestir að taka hámarksþyngd í bekkpressu til þess að geta svarað þessari spurningu. Sumir festast jafnvel í því fari að mæla allar sínar framfarir út frá því hvernig gengur í bekkpressunni. Þeir eru þó líklega á rangri hillu ef ætlunin var að stunda líkamsrækt. Nýlega komu vísindamenn fram með þá kenningu að eðlilegast væri fyrir venjulegt fólk að mæla hámarksgetu sína í bekkpressu við 5 endurtekningar. Það að mæla hámarksgetu einnar lyftu ætti fyrst og fremst að tilheyra kraftlyftingamönnum.

Það voru þeir Ralph Carpinelli við Adelphi Háskólann í New York sem skrifar um þetta umdeilda mál. Eflaust er innst inni hægt að vera sammála þessum hugleiðingum Ralph og félaga, en það breytir ekki þeirri staðreynd að flestir vilja vita hvað þeir taka í bekk og þó að þeir félagar hafi bent á að hægt sé að áætla einnar endurtekningar-hámark út frá fimm lyftum þá er það ekki það sama og að hafa tekist á við stöngina í bardaga um mestu þyngdina. Einstaklingar eru misjafnir í getu hvað varðar þol og getu til að takast á við eina mikla þyngd í einni lyftu og það er ekki það sama að giska á hámarksgetuna og að hafa látið á hana reyna.

(Medicina Sportiva, 15: 91-102, 2011)