Ekki er hægt annað en að bera fram athugasemdir við orðalag fréttar í textavarpinu um ofbeldismenn og sterapróf. Talað er um að ofbeldismenn taki „vaxtarræktarstera“. Það er ekkert til sem heitir „vaxtarræktarsteri“. Með þessu orðalagi er ein íþróttagrein bendluð við þessa frétt. Staðreyndin er sú að um gríðarlegan fjölda sterategunda er að ræða. Ýmsar vísbendingar benda til þess að steraneysla sé að aukast meðal „ólánsfólks“ sem er ekki endilega að stunda vaxtarrækt né aðrar íþróttagreinar, heldur hefur einfaldlega aðgang að sterum vegna fylgni þeirra við önnur ólögleg efni hjá sölumönnum.

Full ástæða er til að benda á tengsl steraneyslu við aukna ofbeldishneigð þó það sé langt frá að vera ný frétt þar sem sýnt var fram á þessi tengsl árið 1985 með ágætum rannsóknum. Það sem ég vill gera athugasemd við er að nefna þessa stera „vaxtarræktarstera“. Tala ætti frekar um anabólíska stera eða á íslensku vefaukandi stera. Þeir gagnast öllum íþróttagreinum og gaman væri að sjá íslenska fjölmiðla upplifa raunveruleikann í þessum efnum eins og ætti að gerast núna með opinberun THG sem frjálsíþróttamenn og fleiri íþróttamenn nota. Það hefur nefnilega verið einkennilegt að fylgjast með viðbrögðum fjölmiðla hér á landi í gegnum tíðina varðandi það að þegar „æðri“ íþróttagreinar lenda í lyfjahneyksli er gjarnan reynt að nefna vaxtarrækt í sömu andrá þó í annarri frétt sé þó hún hafi ekkert með málið að gera. Þannig er engu líkara en reynt sé að draga úr sekt „æðri“ íþróttagreina á kostnað vaxtarræktar.