Upptogið er sérstaklega góð æfing fyrir axlir og handleggi. Þetta er yfirgripsmikil æfing sem tekur ekki eingöngu á axlir og framan á handleggi, heldur einnig á hálsinn og efri hluta baksins.

Æfingin hentar vel fyrir efri hluta líkamans þar sem hún tekur á svo marga vöðvahópa. Til viðbótar við bekkpressuna nær upptogið að styrkja vel vöðvana í kringum axlaliðina og mynda jafnvægi á því svæði til þess að bekkpressan og axlapressan  verði ekki einráð í að byggja upp þetta svæði.

Haldið er með þröngu gripi, lófarnir snúa að líkamanum. Byrjað er í mittishæð með stöngina og lyft upp með olnbogana á undan. Lyft er þar til stöngin nemur við efri hluta brjóstkassans og síðan farið aftur niður í byrjunarstöðu. Halda þarf líkamanum beinum á meðan lyft er, hnén örlítið bogin og varast ber að sveifla.