Eins og undanfarin ár verður Íslandsmótið í fitness haldið um páskana á Akureyri. Nú í ár verður hinsvegar meira um viðburði á Akureyri því Íslandsmótið í vaxtarrækt verður haldið á sama tíma og haldnar verða sýningar og keppnir í ýmsum öðrum íþróttagreinum. Vaxtarræktarmótið verður haldið 25. mars sem er Föstudagurinn langi. Sama dag verður einnig forkeppni fitnesskeppninnar og daginn eftir, 26. mars verða úrslit fitnesskeppninnar. Stefnt er að því að keppendur og aðstandendur hittist í lokahófi að keppni lokinni.Fram til þessa hafa vaxtarræktar- og fitnesskeppnirnar verið haldnar í sitthvoru lagi þrátt fyrir að báðar keppnisgreinarnar séu á vegum IFBB alþjóðasambandsins. Á síðastliðnu heimsmeistaramóti í fitness fór forseti Evrópusambands IFBB fram á að fitness og vaxtarrækt yrðu sameinuð hérlendis og að vaxtarræktarmót yrðu einnig í umsjón fitnessdeildar IFBB hérlendis. Er í kjölfar þessara breytinga stefnt að því að koma vaxtarrækt upp úr þeirri lægð sem keppnisgreinin hefur verið í undanfarið og efla kynningu og ímynd hennar meðal almennings. Mun fitness.is og Fitnessfréttir taka vaxtarrækt til aukinnar umfjöllunar í kjölfar þessa og kappkostað verður senda keppendur til keppni í vaxtarrækt á erlendri grundu eins og gert hefur verið í fitness.

Keppt í meistaraflokki og unglingaflokki karla í fitness
Bætt verður við flokkum í fitnesskeppninni. Karlar sem eru orðnir 40 ára geta keppt í meistaraflokki og unglingaflokki sem miðast við 21 árs og yngri. Miðað er við afmælisdag keppanda. Þó keppandi sé orðinn gjaldgengur í meistaraflokk, ræður hann hvort keppt sé í meistaraflokki eða opnum flokki. Töluverð eftirspurn hefur verið eftir því að bæta við þessum keppnisflokki, enda margir keppendur sem eru í góðu formi á þessum aldri.

Keppnisflokkar í fitness:
Formfitness kvenna unglingar (Yngri en 21 ára).
Formfitness kvenna  opinn flokkur.
Í kvennaflokkum er keppt í hindranabraut og þremur lotum í samanburði.

Fitness karla  unglingaflokkur (Yngri en 21 ára).
Fitness karla  opinn flokkur
Fitness karla  meistaraflokkur (40 ára og eldri)
Í karlaflokkum er keppt í upptogi, dýfum, hindranabraut og samanburði.

Eins og sagt var frá á fitness.is, þá stendur til að keppt verði í fitnessflokki karla þar sem keppendur taka 5 stöður svipað og gert er í vaxtarræktinni. Ekki verður keppt í þeim flokki að sinni hérlendis, en áætlað er að keppt verði í þessum flokki á Evrópumótinu (EM) sem haldið verður í maí í Úkraínu. Keppnishaldarar hér vilja bíða og sjá hvernig þetta þróast en hugsanlegt er að keppendur verði sendir í þennan flokk á EM. Yrði þá ekki keppt í danslotu karla eins og tíðkast að gera á HM og EM.

Aðrar uppákomur
Stefnt er að því að keppt verði í ýmsum öðrum íþróttagreinum á föstudeginum og laugardeginum. Er þar hægt að nefna Íslandsmótið í róðri á Concept2 róðravélum og kraftlyftingakeppni svo eitthvað sé nefnt. Nánar verður auglýst í hvaða keppnisgreinum verður keppt í þegar nær dregur.

Vöru- og þjónustusýning
Ýmsir sýningaraðilar munu kynna vörur og þjónustu í Íþróttahöllinni þessa tvo daga á meðan keppnin stendur. Fyrir nokkrum árum var haldin sambærileg sýning í tengslum við fitnesshelgi og er orðið tímabært að endurvekja hana, enda var aðsóknin að sýningunni á sínum tíma mikil og góður rómur gerður að.

Dagskrá fitness- og vaxtarræktarkeppna
25. mars Íslandsmótið í vaxtarrækt 2005
25. mars Forkeppni Íslandsmótsins í fitness
26. mars Úrslit Íslandsmótsins í fitness 2005