Galdurinn á bakvið Atkins-kúrinn var heildarfjöldi hitaeininga þegar upp var staðið. Fyrir skemmstu var sýndur sjónvarsþáttur í Ríkissjónvarpinu frá BBC sem sýndi fram á þetta.Í umfjöllun um Atkins-kúrinn var látið að því liggja að prótínríkt og fituríkt mataræði verkaði eftir öðrum lögmálum en þegar kolvetnarík fæða væri annars vegar. Í þessum sjónvarpsþætti frá BBC var fjallað nokkuð ítarlega um kenningar Dr. Atkins sjálfs og síðan rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessum matarkúr.

Í grundvallaratriðum var niðurstaðan sú að í raun væru þeir sem borðuðu samkvæmt Atkins-kúrnum ekki að melta eða vinna úr fæðunni á annan hátt en aðrir, en þegar allt var reiknað saman reyndust þeir borða færri hitaeiningar þrátt fyrir fituríkt fæði. Ennfremur var matarlystin minni sem rakið var til þess að ákveðnar amínósýrur (prótín) hefðu letjandi áhrif á matarlystina. Eins og við hér á fitness.is höfum oft bent á, þá er það órjúfanlegt lögmál að ef þú brennir færri hitaeiningum en þú borðar, þá fitnarðu. Svo einfalt er það. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er ekki þar með sagt að menn ættu að auka kolvetnaneysluna – nei, frekar að vera meira vakandi yfir því hversu mikið er borðað í heildina óháð því hvaðan sú fæða kemur.