Close-up of the abdominal muscles young athlete on gray background
Close-up of the abdominal muscles young athlete on gray background

Með það í huga hverjar hætturnar af offitu eru er það ánægjulegt hve margir eru meðvitaðir um sína eigin líkamsþyngd og reyna að hafa stjórn á henni.
Hins vegar er ekki sama á hvaða aldri reynt er að hafa veruleg áhrif á líkamsþyngdina. Könnun sem gerð var í San Francisco leiddi í ljós að sífellt fleiri og fleiri kornungar stúlkur reyna að hafa áhrif á líkamsþyngd sína. Það kom í ljós að 50% af 9 ára stúlkum og 80% af 10 – 11 ára stúlkum sögðust breyta mataræðinu til þess að léttast. Sumar ungar stúlkur fara í megrun til þess að geta litið út eins og stjörnurnar þeirra, Britney Spears, Madonna, Cybill Sheppard og fleiri sem þau sjá í sjónvarpinu eða í tímaritum.

Það furðulega við þetta allt saman var samt sem áður að 58% þeirra 9 ára stúlkna í könnuninni álitu sig of feitar en einungis 17% þeirra gætu talist svo miðað við hæð og þyngd.

Vandamálið er að stúlkur á þessum aldri eru að ganga í gegn um mikinn þroska líkamlega sem andlega, og megrun getur tekið frá þeim næringu sem þeim er mjög nauðsynleg til uppbyggingar. Börn á þessum aldri þarfnast góðrar fæðu og hóflegra æfinga, ekki sultar-mataræðis. Strangt mataræði á þessum aldri getur hamlað þroska sem ekki verður bætt fyrir.  Laurel Mellin einn aðal framkvæmdamaður rannsóknarinnar í San Francisco segir: „Börn alast upp í þjóðfélagi sem er mjög meðvitað um líkamsþyngd og þolir ekki nein frávik frá hinu fallega útliti.“ Auk þessa herma börnin eftir foreldrum sínum sem oft eru með miklar áhyggjur af sinni líkamsþyngd og sífellt í megrun.  Það sem foreldrar gætu gert er að gera sér betur grein fyrir hræðslu barnanna gagnvart líkamsþyngd sinni og reyna að eyða óttanum og styrkja þau. Því er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þarfir barna eru ekki þær sömu og fullorðinna og að það er veruleg ábyrgð sem hvílir á foreldrum varðandi það hvað þau venja börnin á að borða.