Unnar2C.jpg (14402 bytes)Unnar Vilhelm Karlsson náði frábærum árangri í líkamsrækt á 12 vikum

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum sem flettir erlendum líkamsræktarblöðum að EAS keppnin sem haldin er af Bill Philips, ritstjóra Muscle Media tímaritsins hefur náð heimsathygli. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt þegar haft er í huga að yfir 50.000 manns tóku þátt í keppni um að ná sem mestum árangri í líkamsbætingu á tólf vikum. Ástæðan fyrir því að svo margir tóku þátt er líklega sú að aldrei áður hafði verið lofað jafn glæsilegum verðlaunum. 10 efstu sigurvegararnir fengu Corvettu bifreið og peningaverðlaun og auglýsingasamning að auki.

Unnar Vilhelm Karlsson fór í gegnum 12 vikna áætlun eins og fyrir er lagt í keppninni eftir að Bjarni Jónsson umboðsaðili EAS bætiefna hér á landi hvatti hann til þess. Árangurinn sem hann náði var í einu orði sagt frábær. Fyrir síðustu jól kom út bókin Líkami fyrir lífið, sem lýsir því hvernig farið er í gegnum þessa áætlun, en okkur hjá FF langaði til þess að fá að heyra frá fyrstu hendi hvernig farið er að þessu. Í dag starfar Unnar sem einkaþjálfari og greinilegt að hann er í góðu formi. Við settumst niður á Sólon Íslandus yfir súpuskál og Unnar sagði frá.

Át Kókópuffs og ristað brauð
Þetta byrjaði þannig að ég veiktist haustið ´98 og gat ekkert æft og fór út á land í desember til þess að hvíla mig hjá ömmu. Þar lá ég í sófanum og át Kókópuffs og ristað brauð. Síðan þegar ég kom í bæinn tók Bjarni vinur minn eftir því hve hörmulegu formi ég var í og hringdi í mig skömmu síðar og spurði mig hvort ég vildi fara í gegnum þessa áætlun. Þegar hann hringdi lá ég í leti fyrir framan sjónvarpið og var fljótur að átta mig á að þetta væri það sem ég þyrfti. Mig vantaði eitthvað til að stefna að. Ég hafði verið að reyna að byrja að æfa en var áhugalaus og þetta var hvatningin sem vantaði.

Gekk hægt til að byrja með
Til að byrja með gekk þetta hægt. Þegar ég byrjaði var ég 95 kg og eftir fyrsta mánuðinn sást ekki mikill munur. Þegar ég mætti þá í myndatökuna, hristi Bjarni hausinn því árangurinn var lítill. Frá annarri og þriðju mynd sást hinsvegar góður munur og eftir þrjá mánuði var ég kominn í dúndrandi gott form, 95 kg og með 6% fituhlutfall. Á meðan þessu stóð hlóð Bjarni á mig bætiefnum. Allan tímann var ég að borða Myoplex Deluxe, Phosphagen HP, Betagen og Precision Protein og síðan tók ég EFA fitusýrurnar með til þess að styrkja ónæmiskerfið. Bjarni sá til þess að ég fékk það sem ég þurfti af þessum efnum. Eftir sex vikur hætti ég reyndar að borða Phosphagen HP til þess að minnka sykurinn og hélt áfram með hin efnin. Allan tímann var ég að borða 2000 hitaeiningar. Það breyttist ekki, en hinsvegar breytti ég hlutfallinu á orkuefnunum. Þegar á leið jók ég próteinið og minnkaði kolvetnin.

Finnst borga sig að hafa skipulagið einfalt
Aðal uppistaðan í matnum var kjúklingur og túnfiskur, en ég reyndi alltaf að borða 2 – 3 aðalmáltíðir á dag og tók síðan alltaf tvo poka af Myoplex líka og einn af Precision Protein. Dagurinn byrjaði þannig hjá mér að ég byrjaði á að fá mér Myoplex Deluxe í morgunmat. Í hádegismat fékk ég mér yfirleitt kjúkling eða fisk og grænmeti og kartöflur. Um miðjan daginn fékk ég mér annan Myoplex Deluxe sem var þá yfirleitt eftir æfingu. Þá fékk ég mér líka Phoshagen HP og Betagen. Síðan kom kvöldmatur sem fólst yfirleitt í túnfisk og grænmeti. Þá reyndi ég að ná mér í allt grænmeti sem tiltækt var til þess að hafa sem mesta fjölbreytni. Um kvöldið fékk ég mér síðan Precision Protein. Það kom fyrir að ég fengi mér þrjá Myoplex Deluxe á dag. Það fór helst eftir því hvenær ég vaknaði til að fara að vinna. Að sumu leiti var þetta einhæft, ég var t.d. orðinn verulega þreyttur á túnfiski, en ég trúi því að það borgi sig að hafa þessa hluti einfalda. Ef þú ert í átaki og ert að reyna að halda það út finnst mér borga sig að hafa hlutina einfalda. Margir mæla á móti því að hafa þetta einfalt á þeirri forsendu að þeir haldi það síður út, en ég held að ef einstaklingurinn er að breyta þessu og venji sig ekki á ákveðið mataræði, þá held ég að hann lendi frekar í sukki. Hann fer að breyta aðeins of mikið og fellur auðveldar, nánast án þess að vita af því. Ég hafði þetta alltaf einfalt. Borðaði alltaf sömu tegundirnar þrátt fyrir að vera orðinn leiður á því sem ég var að borða.

Jól einu sinni í viku
Einn dag í viku fóru ég og Bjarni á veitingastað og ég borðaði eins og ég gat. Sex daga vikunnar borðaði ég 2000 hitaeiningar en á laugardögum borðaði ég lágmark 6000 hitaeiningar. Þá var farið á pastastað og troðið í sig. Ég miðaði þetta við kenningu Bill Philips sem hann segir frá í Supplement Guide bókinni um „anabolic burst diet“ mataræðið. Ef ég borðaði minna en 6000 hitaeiningar fannst mér þetta ekki virka eins vel. Á sunnudeginum var ég fljótur að verða svangur aftur og þá var greinilegt að brennslan var komin vel í gang aftur. Mér finnst grunnurinn að því að geta haldið þetta út sé að taka einn svona dag í viku. Tilgangurinn með þessu er sá að keyra upp hormónastarfsemina og brennsluna. Til þess að það gerist þarf að fá mikið magn af hitaeiningum. Það sem hjálpaði manni við að komast í gegnum vikuna var að hlakka til laugardagsins. Þegar vaknað var á laugardögum var maður eins og lítið barn á jólunum. Þeir sem eru á draslfæði alla vikuna kunna ekki að njóta þess að borða ruslmat því þeir eru alltaf að borða hann.

Gerðum skriflegan samning
Í upphafi tímabilsins gerðum við Bjarni skriflegan samning þar sem tekið var fram að ég ætti að fara í lyfjapróf og ef ég myndi falla á því yrði ég að borga öll fæðubótaefni fullu verði sem ég hafði fengið. Þessvegna átti ég alltaf von á því að Bjarni myndi einn daginn birtast með glas til að pissa í, en það kom aldrei til því það náðust ekki samningar við ÍSÍ um framkvæmd á lyfjaprófinu. Erlendis eru gerð lyfjapróf á öllum sem komast í úrslit í EAS keppninni til þess að vera viss um að menn svindli ekki með því að taka stera.

Lífið á margan hátt betra eftir átakið
Í dag starfa ég sem einkaþjálfari í Betrunarhúsinu og hef nóg að gera. Það má tvímælalaust segja að þetta átak hafi snúið mínu lífi á margan hátt til betri vegar vegna þess að það að vera í góðu líkamlegu formi skiptir miklu máli og hefur áhrif á margar hliðar lífsins.