Landsmenn hafa verið duglegir að stunda Tai Bo í æfingastöðvum víða um land og vinsældir þess hafa verið allmiklar enda fjörug og skemmtileg grein. Karate er hinsvegar ævaforn sjálfsvarnaríþrótt sem líklega á lítið sameiginlegt með Tai Bo nema það að í Tai Bo er búið að blanda hræring úr ýmsum sjálfsvarnaríþróttum og gera úr því leikfimi sem höfðar vel til landsmanna miðað við vinsældirnar. Í karate er sjálfsvörn hinsvegar tekin fastari og alvörugefnari tökum enda er þar á ferð ævaforn sjálfsvarnarlist sem byggir á gömlum hefðum og gerir miklar kröfur til iðkandans í aga og tækni. Okkur hjá FF langaði til að forvitnast um karate enda haft af því spurnir að þar sé góð líkamsrækt á ferðinni. Helgi Jóhannesson, formaður Karatefélags Þórshamars var því tekinn tali.

Hvaða stíl iðkar karatefélag Þórshamars?

Það er Shotokan. Það eru þrír stílar sem eru algengir hér á landi. Þeir eru Shotokan, Okinawa Goju Ryu og Sankudokai.

Eru alþjóðleg samtök til fyrir hvern stíl?

Sjálfur þekki ég best Shotokan karate en Shotokan og Okinawa Goju Ryu eru stórir og útbreiddir karatestílar en Sankudokai er minna í sniðum. Það eru til fimm frumstílar og talað er að allir aðrir stílar hafi orðið til út frá þeim. Shotokan karate og Okinawa Goju Ryu eru frumstílar, en til eru ýmis brot út frá þeim sem er of flókið mál að fara út í. Talað er um að upphafsmaðurinn að Shotokan karate sé höfundur að nútíma karate. Hann fer með það frá Okinawa yfir til Japans þar sem hann heldur sýningu fyrir Japanskeisara og breiðir það út þaðan.

Hver er munurinn á þessum stílum?

Það er helst fólgið í því hvernig einstaka tækni er beitt. Bæði hvað varðar stöður og það hvernig högg og spörk eru framkvæmd. Í grunnatriðum er verið að gera það sama, þetta eru sjálfsvarnaríþróttir og við erum að efla okkur sjálf til að verjast hugsanlegum árásum en það er mismunandi hvernig við gerum það. Shotokan er t.d. með langar og djúpar stöður en Okinawa Goju Ryu er með styttri stöður. Stílarnir hafa þróast eftir því hvernig umhverfi meistararnir voru í.

Hvað eru margir að stunda karate hjá Þórshamri?

Það eru um 240 manns í dag. Félagið hefur vaxið mikið síðustu þrjú ár og við höfum þurft að bæta við þremur nýjum flokkum síðastliðið haust til þess að anna eftirspurn. Það eru þrískiptir aldurshópar, þeir yngstu eru sex ára þannig að fólk er á öllum aldri. Það er svolítið skrítið að í yngsta flokknum eru aðallega strákar, en í unglinga og fullorðinsflokki er nánast jöfn skipting. Konur hafa eins og karlmenn fundið fyrir því að þær þurfi að kunna sjálfsvarnir og vera betur undir það búin að mæta öllum aðstæðum auk þess sem karate er góð líkamsrækt.

Hverjir eru helstu kostir karate?

Fyrir utan augljósu kostina sem eru að kunna sjálfsvörn og tækni til að beita í nauðvörn ef á þig er ráðist, þá færðu aukið þol og styrk og eykur fimi. Flestir líta á þetta sem líkamsrækt en að auki fá menn aukna þekkingu og kunnáttu í sjálfsvarnarlistum.

Hversu lengi eru menn að vinna sig upp í svart belti?

Það þarf að taka tíu gráður fram að því og yfirleitt er lágmark að taka þrjá mánuði á milli gráða. Það er raunhæft að ná því á fjórum árum fræðilega séð, en þegar menn eru komnir lengra vilja þeir gjarnan staldra við og taka hægari skref. Það er yfirleitt þannig þegar lengra er komið. Algengt er að menn haldi að svarta beltið sé lokapunktur, en þegar þangað er komið er farið að kenna allt aðra hluti og nákvæmari tækni þannig að það er fyrst þá sem menn sjá hvað þeir í raun vissu lítið. Í karate eru gefnar tvær tegundir af gráðum, svokallaðar Kyu og Dan en Kyu er nemendagráða og Dan er meistaragráða. Þegar menn eru komnir með svart belti eru þeir komnir með fyrsta Dan en eftir það eru menn minnst tvö ár að fá annað Dan. Síðan er yfirleitt lengri árafjöldi á milli Dan gráðana þó algengt sé að menn stoppi við ákveðna gráðu í lengri tíma.

Eftir hvaða reglum er dæmt í keppni?

Það er keppt eftir reglum Alþjóða Karatesambandsins en þar er dæmt í Kata, sem er bardagi við ímyndaðan andstæðing. Þar er dæmt út frá því hve vel þú útfærir þá Kata sem tilheyrir þínum stíl. Dómarinn metur tæknina og líkamsbeitinguna og það hvernig útgeislunin er. Þó dómarinn æfi ekki þann stíl sem keppt er í, þá eru þeir allir með það háa gráðu að þeir kunna að meta það hvenær þú beitir réttri tækni og hvenær ekki. Í Kumite hlutanum, sem er bardagi á milli tveggja einstaklinga, er reynt að verða sér úti um stig með því að koma tækni að andstæðingnum án þess að beita of miklu afli í árásum. Það má koma við andstæðinginn en ekki fylgja árásum eftir. Menn fá refsistig og geta jafnvel verið dæmdir í keppnisbann ef of mikil snerting er notuð.