Það er ekki ofsögum sagt að miklu verði tjaldað til á Bikarmóti IFBB laugardaginn 4. nóvember í Austurbæ. Þar mætast stærstu nöfnin í fitness í dag.Tæplega 30 keppendur eru skráðir til keppni í heildina á Bikarmótinu. Í fitnessflokki kvenna mætti nefna Heiðrúnu Sigurðardóttur Íslandsmeistara IFBB í fitness, Freyju Sigurðardóttur nýkrýndan Íslandsmeistara Icefitness og fyrrverandi Íslandsmeistara IFBB. Anna Bella Markúsdóttir keppir einnig en hún keppti fyrir skemmstu á Heimsmeistaramóti IFBB. Kristín Kristjánsdóttir Íslandsmeistari kvenna yfir 35 ára keppir einnig og nefna mætti fleiri valinkunna keppendur í fitness kvenna. Alls eru 12 keppendur skráðir í fitnesskeppni kvenna. Í fitnesskeppni karla eru 6 karlar skráðir til keppni og sjást þar nöfn eins og Jakob Már Jónharðsson, Sigurkarl Aðalsteinsson, Þór Þormar Pálsson ofl. Keppt verður í módelfitness á Bikarmótinu og er ennfremur búist við harðri keppni í þessari nýju keppnisgrein. Í vaxtarræktinni þar sem stóru karlarnir keppa mætast þeir Sigurður Gestsson, Sæmundur Hildimundarson, Svavar Már Einarsson ofl. Bikarmótið hefst kl 20.00 í Austurbæ. Hægt er að kaupa miða á midi.is