Ungu fólki hefur oft verið sagt að sjálfsfróun, það að halda bókum of nálægt þegar lesið er, eða ekki sé borðað nóg af gulrótum geti leitt til þess að menn verði blindir eða sjóndaprir. Allar þessar kenningar eiga það sameiginlegt að vera nokkurs konar trúarleg atriði frekar en vísindaleg, enda bendir allt til þess að þær séu allar rangar. Vísindamenn við Ríkisháskólann í Colorado í Bandaríkjunum halda því fram að of mikil neysla á einföldum sykri á uppvaxtarárum geri augasteininn óeðlilega langan sem aftur veldur nærsýni, t.d. neysla brauðs í miklu magni. Meðal fólks af evrópskum uppruna er nærsýni algeng og allt að 30% manna eru haldin þessum kvilla. Mikið magn kolvetna í mataræðinu eykur losun insúlíns sem aftur kallar fram annað efni sem hefur skaðleg áhrif á þroska augans í uppvextinum. Samkvæmt gögnum vísindamannana bendir ýmislegt til þess að með því að gefa börnunum meira prótín verði þessi skaðlegu áhrif ekki jafn alvarleg. Í samfélögum þar sem mest er borðað af prótínríku fæði og lítið af einföldum kolvetnum er hlutfall nærsýni einungis 2% á móti áðurnefndum 30% hjá Evrópubúum.