Læknar forðast að ræða kynlíf við sjúklinga Einungis 3% lækna ræða við hjartasjúklinga um risvandamál þrátt fyrir mjög háa tíðni risvandamála meðal þeirra.

Það eru til ýmsar aðferðir til að mæla hamingju. Kynlífsiðkun er ein þessara aðferða. Rannsóknarstofnun í efnahagsvísindum í Bandaríkjunum gerði rannsókn á hamingju landsmanna sem bendir til að iðkun kynlífs sé besti mælikvarðinn á hamingju. Meira kynlíf – meiri hamingja.

Hamingja karlmanna fer stigvaxandi eftir því hvort þeir stunda kynlíf tvisvar til þrisvar í mánuði, tvisvar til þrisvar í viku eða fjórum sinnum eða oftar í viku.

Iðkun kynlífs reynist vera besti mælikvarðinn á hamingju.

En kynlíf getur líka komið upp um undirliggjandi sjúkdóma. Það þarf engum að koma á óvart að hjartasjúklingar vilji stunda kynlíf eins og aðrir. Risvandamál er eitt áreiðanlegasta forspárgildið fyrir hjartaáfalli. Ástæðan er sú að örsmáar æðar í limnum þrengjast á undan kransæðunum sem sjá hjartanu fyrir blóðstreymi.

Dariusz Kalka við Wroclawháskólann í Póllandi kannaði samskipti lækna og hjartasjúklinga. Hann komst að því að einungis 3% lækna ræða við hjartasjúklinga um risvandamál þrátt fyrir mjög háa tíðni risvandamála meðal þeirra.

Kynlíf skiptir bæði heilsu og hamingju miklu máli. Það skiptir því líka miklu máli að læknar og sjúklingar ræði þetta mikilvæga mál.
(Archives of Medical Science, 13: 302-310, 2017)