Undanfarin ár hafa karlar sem keppa í öldungaflokkum haft úr fjölda flokka að velja þegar þeir stíga á svið í fitness og vaxtarrækt. Á Evrópu- og Heimsmeistaramótum hefur mátt sjá karla á áttræðsaldri stíga á svið og það í frábæru formi. Þessir keppendur  hafa verið enn einn vitnisburðurinn um jákvæð áhrif líkamsræktar og heilbrigðs lífsstíls þegar aldurinn færist yfir. Undanfarin tvö ár hafa forsvarsmenn IFBB hér á landi lagt á það ríka áherslu við kollega sína erlendis að konur sætu ekki við sama borð og karlar þegar kæmi að úrvali öldungaflokka. Eftir nokkra fundi og skriflegan rökstuðning hefur Alþjóðasambandið ákveðið að stofna nýjan 45 ára og eldri flokk fyrir konur í bodyfitness á Evrópumótinu sem haldið verður í Santa Susanna á Spáni. Fjallað er ítarlega um þennan nýja flokk í nýjasta fréttabréfi Alþjóðasambandsins (bls 42-45). Þar er mynd af Kristínu Kristjánsdóttur sem er gjaldgeng í þennan flokk en Kristín og Jóna Lovísa Jónsdóttir stefna báðar á að keppa í þessum flokki á komandi Evrópumóti sem fer fram í byrjun maí á Spáni.

Það verður að teljast líklegt að þessi flokkur eigi framtíð fyrir sér þar sem sífellt fleiri konur keppa í fitness og satt að segja er meirihluti keppenda á mörgum mótum konur. Fram til þessa hefur einungis verið boðið upp á 35 ára og eldri flokk sem þýðir að konur hafa átt erfitt með að keppa við jafnaldra sína á jafnréttisgrundvelli á meðan keppnisflokkar karla gera ráð fyrir að þeir keppi fram á grafarbakkann. Með þessu þykir eitt skref hafa verið tekið í átt að jafnrétti.