Karen Lind ThompsonViðtal: Ég heiti Karen Lind Thompson og er bikini fitness keppandi. Ég á heima í grafarvoginum ásamt Ríkharð Bjarna kærastanum mínum og hundunum okkar tveimur. Lífið okkar snýst að mestu leyti um líkamsrækt en við erum bæði í þeim geira. Ég er að stunda nám í Hársnyrtiskólanum en mun vonandi komast á samning eftir áramótin og fara að vinna á stofu.

 

Hvað kom til að þú fórst að keppa?

Mig hefur alltaf langað að keppa í fitness síðan að ég var lítil.Ég man eftir sjálfri mér horfa á eina keppni með pabba mínum þegar að ég var lítil og hugsaði þá fyrst að svona vildi ég verða. Ég hef alltaf borið gífurlega virðingur fyrir fitness og vaxtarræktarfólki. Ég var að skoða myndir síðan á Bikarmótinu 2011 þegar að ég loksins ákvað að láta verða af því og koma mér í keppnisform og fara uppá sviðið og keppa í Bikini fitness á Íslandsmótinu 2012.

 

Hversu oft hefurðu keppt og hvernig hefur gengið?

Ég er búin að keppa sjö sinnum og áttunda mótið mitt er núna á Íslandsmótinu. Þar með hef ég keppt 3 sinnum hér heima og orðið tvöfaldur íslandsmeistari og einfaldur bikarmeistari. Ég hef tvisvar farið á Arnold Classic í Madríd og lenti í 13.sæti árið 2012 (enda var ég alltof stór og of lítið skorin). Loaded cup fór ég á núna um páskana og lenti í 4. sæti. Næst var það Heimsmeistaramót í Kiev núna í september þar sem ég komst í 15 manna úrslit af 32 keppendum og lenti í 12.sæti. Svo var það Arnold classic í Madríd núna í október þar sem ég náði 2. sætinu og þar með silfri. Líf mitt hefur gjörbreyst til hins betra eftir að ég byrjaði að keppa í fitness og náð svona góðum árangri. Líkamsrækt er mjög mikilvægur partur af mínu lífi og þá sérstaklega fyrir bakið á mér. En ég lenti í tveimur bílslysum sem fóru illa í bakið á mér og hafa lyftingar gert mér alveg ofboðslega gott til þess að styrkja á mér bakið. Svo að ég mun aldrei hætta að lyfta og hugsa vel um líkamann minn.

 

Hvar æfirðu og hversu oft?

Ég æfi í World Class og þá yfirleitt uppí Spöng. En ég á það til að flakka á milli stöðva þegar ég er komin með leiða og vantar tilbreytingu. Ég æfi 6 daga vikunnar og frá 6-10 sinnum í viku en það fer eftir því hversu langt er í mót hjá mér. Mér finnst best að æfa ein með tónlistina í eyrunum. Ég er yfirleitt ekki nema klukkutíma að æfa þar sem að ég fylgist yfirleitt með púlsinum hjá mér og vill helst ekki leyfa honum að fara undir 140 slög á mínútu á meðan ég er að æfa, svo að hvíldin er mjög stutt á milli repsa hjá mér. Mér finnst það henta mér lang best og heldur með gangandi í gegnum æfinguna.

 

Hvernig er mataræðið í stuttu máli?

Matarræðið hjá mér reyni ég að hafa sem fjölbreyttast bæði þegar ég er í niðurskurði og á venjulegu matarræði. Ég reyni að forðast unninn mat og að nota sem hollust hráefni sem ég kemst í. Að vera fitnesskeppandi er lífsstíll og matarræðið fylgir þar með. Ég reyni að halda mér sem næst „on-season“ forminu og ég get á meðan ég er ekki í keppnis undirbúningi. Enda verður niðurskurðurinn svo mikið auðveldari fyrir vikið.

Matarræðið hjá mér inniheldur mest megnis hafragraut, fisk, rækjur, kjúkling, mikið af kjöti og grænmeti.

En svo fæ ég mér alltaf heimatilbúið slátur með uppstúf og kartöflum eftir mót og er alltaf mesta tilhlökkunin að fá slátur og ostaköku eftir mót.