Aníta_Rós_BAG9876editAníta Rós Aradóttir byrjaði fyrir skömmu að keppa í módelfitness og er strax farin að blanda sér í baráttuna um efstu sætin. Hún er að læra íþrótta- og heilsufræði og hefur mikinn áhuga á líkamsrækt. Aníta var beðin um að segja lesendum Fitnessfrétta frá sér.  
Ég er frá blómabænum Hveragerði og er fædd 1989. Ég bý núna á Laugarvatni með Elmari Eysteinssyni kærastanum mínum þar sem ég er í námi. Ég útskrifast í júní með B.s gráðu í Íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Ég vinn með náminu í íþróttahúsinu á Laugarvatni og svo erum við Elmar einnig saman með einka- og fjarþjálfun. Í framhaldinu stefni ég á að starfa í tengslum við heilsu og þjálfun og mögulega á mastersnám eða eitthvað annað spennandi.

Hvernig hefur gengið að samhæfa æfingar og nám?

Það hefur gengið mjög vel en dagskráin er yfirleitt þéttskipuð frá morgni til kvölds flesta daga vikunnar en allt hefur það gengið upp með skipulagningu, jákvæðni og ákveðni að leiðarvopni.

Hvernig ertu búin að æfa síðastliðið ár?

Síðastliðið tæpt ár hef ég verið í markvissu , krefjandi en einstaklega spennandi prógrammi hjá meistara Jóhanni Norðfjörð í Fitness Akademíunni. Off season þá lyfti ég yfirleitt sex sinnum í viku en þegar nær dregur keppni bætast við morgunbrennslur og er ég þá að æfa ellefu sinnum í viku.

Hvað hefur þér þótt erfiðast við undirbúningin fyrir mót?

HIIT sprettir. Þeir eru alltaf jafn erfiðir, en ég elska þá eftir á. Þetta er svona love-hate thing, alveg eins og harðsperrur og súkkulaði.

Ertu að stefna á keppnir erlendis?

Já ég er farin að skoða mót erlendis í vor sem verður mjög spennandi verkefni ef allt gengur að óskum.

Hvað varð til að kveikja áhuga þinn á því að keppa í módelfitness?

Mér hafði lengi vel þótt íþróttin áhugaverð og gífurlega magnað að sjá hvernig hægt væri að móta og styrkja skrokkinn með þjálfun og mataræði. Ég elskaði að lyfta og æfa en aldrei átti ég von á því að ég myndi nokkurn tíman geta keppt í fitness, ég ákvað þó að stíga út fyrir þægindarrammann og láta reyna á það því mér vantaði krefjandi áskorun og vildi  sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti allt sem ég ætlaði mér.  Að takast á við þá áskorun sem felst í því að keppa kennir manni ýmislegt og maður lærir að þekkja sjálfan sig og getu sína betur.

Til að keppa í fitness skiptir fyrst og fremst  máli að hafa áhuga á íþróttinni, ásamt því að upplifa ánægju og vellíðan af því að tileinka sér þann lífstíl sem því fylgir. Staðfesta, ákveðni, vilji og trú er svo það sem þarf til að ná árangri.