Kristín KristjánsdóttirKristín Kristjánsdóttir varð heildarsigurvegari í fitness á Ben Weider Diamond Cup mótinu sem fram fór í Aþenu í Grikklandi í desember síðastliðinn og var í kjölfarið boðið svonefnt atvinnumannakort (ProCard). Einungis tveimur íslendingum hefur tekist að eiga kost á atvinnumannakorti hjá IFBB, alþjóðasambandi líkamsræktarmanna en fyrir skemmstu hélt Margrét Gnarr út í atvinnumennskuna.

Þessi sigur Kristínar er sérstaklega eftirtektarverður í ljósi þess að hún keppti í opnum flokki allra aldursflokka en ekki í flokki 45 ára og eldri eins og hún hefur oftast gert. Kristín er 47 ára. Þessi stórsigur er því einstaklega ánægjulegur fyrir Kristínu sem fyrir vikið fer á spjöld líkamsræktarsögunnar hér á landi sem og víðar. Hún keppti fyrst í undir 163 sm flokki sem hún sigraði og keppti að því loknu við sigurvegara í öðrum flokkum sem hún sigraði einnig og varð því heildarsigurvegari mótsins.

Í kjölfar sigursins bauð Rafael Santonja forseti IFBB, alþjóðasambands líkamsræktarmanna Kristínu atvinnumannakort og fullyrti að betri fulltrúa þessarar íþróttar væri erfitt að finna. Kristín hefur á undanförnum árum margoft orðið Íslandsmeistari og Bikarmeistari auk þess sem hún varð Evrópumeistari 2012. Það er ekki sjálfgefið að keppendur þyggi atvinnumannakort þar sem landslagið í heimi líkamsræktarinnar breytist þegar í atvinnumennsku er komið. Kristín var því beðin um að segja okkur frá því hvað væri framundan.

 

Ertu búin að ákveða hvort þú munir fara út í atvinnumennsku?

Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvað ég geri varðandi atvinnumannaréttindin (pro card). Ég átti kost á því að sækja um pro card 2012 þegar ég varð Evrópumeistari en gerði það ekki. Mér þykir það að sjálfsögðu mikill heiður að Rafael Santonja skuli mælast til þess að ég gerist atvinnumaður en ég mun taka ákvörðun um þetta á næstu mánuðum.

Ertu að stefna á einhver mót á næstunni?

Já ég mun keppa á Evrópumótinu nú í maí og líklegast keppa á einhverjum öðrum mótum í kringum það mót. Það er ekki ljóst hvort ég muni ná Íslandsmótinu.

Hvernig fer 47 ára kona að því að koma sér í svona frábært form?

Að ná þessu formi er samspil af mikilli vinnu, aga, mataræði, reynslu og þekkingu. Ég er ekki líkamsgerðin sem á auðvelt með niðurskurðinn og til þess að ná þessu formi sem ég er í á keppnum get ég þurft að æfa þrisvar sinnum á dag vikum saman fyrir mót. Nú svo er auðvitað lykilatriði að hafa alla umgjörð í lagi í kring um sig eins og heimilið og fjölskylduna. Því þegar álagið er mikið er nauðsynlegt að hafa sterkt bakland sem ég er svo heppin að hafa.