Ertu góður spottari?

Sá sem spottar fyrir þig í ræktinni sér til þess að þú getir lyft síðustu lyftunni án þess að slasa þig. Það gerir hann með því að taka undir stöngina. Hann hjálpar þér að klára síðustu lyfturnar. Það er honum að þakka að þú festist ekki undir stönginni. Það er líka honum að þakka að þú getur tekið meira á en annars án þess að setja þig í lífshættu. Það er kúnst að spotta.

Margir eru með þjálfara í dag sem sjá um að spotta. Þeir sem búa ekki við slíkan lúxus geta snapað sér æfingafélaga eða kallað til einhvern sálufélaga úr salnum til að spotta fyrir sig. Flestir geta spottað fyrir aðra á milli lota.

Það þarf ekki að spotta allar æfingar. Mesta þörfin er í æfingum eins og bekkpressu, hnébeygju og æfingum með laus lóð og stangir. Oftast nægir að einn spotti. Þegar þyngdin er orðin gríðarlega mikil er gott að hafa tvo spottara sem standa þá oftast við sitthvorn stangarendan. Ef tekin eru þung handlóð þarf oft tvo spottara.

Helstu kostirnir við að hafa spottara eru margir. Sá sem lyftir getur tekið meira á án þess að leggja sig í hættu. Hann getur gefið allt í átakið og nær meiri árangri fyrir vikið. Hvatning frá þeim sem spottar kemur lyftunni líka hálfa leið.

Æfingafélagar sjá yfirleitt um að spotta fyrir hvorn annan. Ef enginn er æfingafélaginn þarf hinsvegar að vanda valið þegar einhver er beðinn um að spotta. Þú vilt ekki að spottarinn klúðri því sem þú ert búinn að stefna að. Toppa bekkinn eða beygjuna.

Hvað felst í því að spotta? Helsta hlutverk spottara er að sjá til þess að hægt sé að klára lyftuna og koma stönginni á sinn stað. Yfirleitt í statíf ef um er að ræða bekkpressu eða hnébeygju. Góður spottari veitir líka hvatningu og góð ráð um tækni. Ef teknar eru léttingarlotur (drop-set) hjálpar hann líka við að skipta um lóð eða taka þau af.

Sá sem spottar þarf að kunna æfinguna sem hann er að spotta við. Hann þarf að hafa samskiptin við þann sem er að lyfta á hreinu. Má taka undir stöngina þegar hún er stopp, eða bara þegar hún sígur niður? Ætlar sá sem lyftir að reyna eina, tvær eða þrjár negatífar lyftur?

Sá sem spottar þarf að ráða við þyngdina sem á vantar. Ef þú efast um að þú getir valdið þyngdinni skaltu segja þeim sem er að lyfta það strax.

Ef þú ert að spotta skaltu spyrja hvernig sá sem er að lyfta vilji láta spotta sig. Spurðu hversu oft hann búist við að taka þyngdina. Spurðu líka hvort þú eigir að rétta honum stöngina ef þið eruð í bekkpressu eða skyldum æfingum.

Sá sem biður einhvern að spotta fyrir sig þarf að segja við hverju er að búast. Ef það ert þú sem verið er að spotta fyrir þarftu að segja þeim sem spottar hvað þú búist við að taka margar endurtekningar, hvernig þú viljir að staðið sé við, hversu mikið tekið undir, hvort eigi að rétta stöngina og hvort hann eigi að taka stöngina og vísa henni í statífið eftir lyftuna.

Ef það ert þú sem ert að lyfta skaltu ekki reikna með að spottarinn taki alla þyngdina þegar þú gefst upp. Þú heldur áfram að lyfta af afli þar til stöngin er komin á sinn stað. Ekki hætta að taka á þó sá sem spottar sé búinn að taka utan um stöngina.

Ekki spjalla endalaust. Þegar sá sem er að fara að lyfta er að undirbúa sig fyrir átökin skaltu þegja eða hvetja. Stattu eins nálægt og hægt er þannig að þú náir að beita þér þegar það þarf að taka á stönginni. Vertu viðbúin að þurfa að beita átaki á stöngina.

Forðastu að snerta stöngina eftir að lyftan er byrjuð. Snertu hana einungis ef hún er á leiðinni niður. Þegar stöngin fer að síga niður skaltu ekki rífa hana upp, heldur ýta rétt nægilega undir hana til að viðkomandi nái að klára lyftuna.

Ekki svitna yfir þann sem er að lyfta. Ef þú ert enn að svitna rækilega eftir þínar æfingar geta svitadropar fallið á þann sem er að lyfta. Stattu ögn til hliðar ef þurfa þykir.

Hafðu á hreinu hvert stöngin á að fara. Ef þið eruð í hnébeygjurekka þarftu að vita í hvaða hæð stöngin á að fara eftir lyftuna. Bestu hnébeygjurekkarnir eru með hæðastillingum og öryggisslá sem grípur stöngina ef hún ætlar í gólfið. Ef engin öryggisslá er við hnébeygjuna er best að nota tvo spottara. Einn spottari gerir lítið gagn ef mikil þyngd ætlar í gólfið í hnébeygjum.