Kúpubrjótur öðru nafni
Nokkuð margar æfingar, sérstaklega pressur af ýmsu tagi taka á þríhöfðann. Þríhöfðinn er vöðvinn sem er aftan á upphandlegg. Til þess að byggja upp góðan þríhöfða þarf helst að einangra hann vel og til þess eru fáar æfingar betur fallnar en liggjandi þríhöfðapressa. Þessi æfing byggir ekki einungis upp myndarlegan þríhöfða, heldur tekur hún talsvert á brjóst og bak sem þurfa að halda jafnvægi. Æfingin er gerð þannig að þú liggur á bakinu á flötum bekk með fætur flata á gólfinu. Haltu frekar þröngt og byrjaðu með handleggina beina, en láttu stöngina síga þar til hún snertir ennið. Ýttu henni síðan aftur alla leið upp.
Það er auðveldlega hægt að nefbrjóta sig eða jafnvel losa um nokkrar tennur ef þetta er ekki gert rétt og jafnvægið fer forgörðum  og hafa ber í huga að stundum er þessi æfing kölluð kúpubrjótur. Í ljósi þessa er best að láta einhvern standa við til aðstoðar. Mesta pumpið næst með því að taka til skiptis þrönga bekkpressu og þríhöfðapressuna. (NSCA Excercise Methods Notebooks)