Tímasetning þess hvenær bætiefni eru tekin getur skipt höfuðmáli til árangurs. Algengasta bætiefnið sem flestir taka er einfaldlega prótínblanda. Þetta má rekja til einhverrar helstu uppgötvunar á þessu sviði, þ.e.a.s. vitneskjunnar um að það að taka kolvetna eða prótíndrykki fyrir eða eftir þjálfun eykur nýtni prótínsins og hraðar vöðvauppbyggingu. Vísindamenn við Háskólann í Texas komust að því að best er að taka kolvetni og prótín eftir þjálfun, en jafnframt komust þeir að því að ef kolvetni og prótín eru líka tekin fyrir þjálfun, hefur það engin áhrif á nýtni þess sem tekið er eftir æfinguna. Vaxtarræktarmenn taka gjarnan kolvetna- og prótíndrykki bæði fyrir og eftir æfingar til þess að hámarka vöðvavöxt. Þessi einfalda aðferð virkar og ætti að vera hluti af öllum æfingaáætlunum sem hafa það markmið að auka vöðvamassa. (Med. Sci. Sports Exerc. 35: 449-455, 2003)