hamborgari_ofat_madur_maturÞað þykir ekkert sjálfsagðara en að búa til lista yfir hryðjuverkamenn. Okkur hjá Fitnessfréttum þykir jafn sjálfsagt að búa til lista yfir þær fæðutegundir sem okkur þykir leggja mest af mörkum til offitufaraldursins.

1. Gosdrykkir
Gosdrykkir af öllum gerðum eru helsta ástæða fyrir gjaldþroti næringarfræði nútímans og vinsældir þeirra koma þeim efst á listann. Í þeim er að finna mikið af einföldum sykri og innihaldslausar hitaeiningar. Auðvelt er að drekka mikið af gosi á hverjum degi og því eru hitaeiningarnar fljótar að safnast saman. Ekki bætir úr skák að sumir af kóla-drykkjunum eru ávanabindandi.

 

2. Pítsur
Deigið í pítsunum er fyrst og fremst úr hvítu hveiti og fólk hneigist til að borða mikið af pítsum þegar þær eru á annað borð á borðstólnum. Ein tólf tommu pítsa inniheldur vel á annað þúsund hitaeiningar eftir samsetningu. Hvað orku varðar er hér mikil orka sem að mestu leiti er úr einföldum kolvetnum og sú fita sem þarna er að finna er óhagstæð. Pítsur eru gjarnan borðaðar seint á kvöldin sem eitt og sér er skelfilegt fyrir svefninn þar sem orkan fer mjög líklega í aukakílóin.

 

3. Súkkulaði
Skjótfengin aðferð til að bæta á sig aukakílóum á mettíma. 537 hitaeiningar í 100 grömmum sem er ekki mikið magn. Það eina góða sem segja má um súkkulaði er að það er gott á bragðið og kemur konum í betra skap.

 

4. Franskar kartöflur
Kartöflur einar og sér eru ágæt fæða, en þegar búið er að steikja þær upp úr óæskilegri margnotaðri og misjafnlega þránaðri dýrafitu, fá þær heiðurssæti á svarta listanum. Lítið fengið fyrir gífurlegan fjölda af hitaeiningum og óhollustu. Ekkert jákvætt hægt að segja um franskar þó hugleitt sé þar til frýs í helvíti.

 

5. Kokteilsósa
Af hverju pantarðu ekki strax fitusogsmeðferð hjá lýtalækni? Vel yfir 700 hitaeiningar í hundrað grömmum. Hundrað grömm eru örfáar teskeiðar. Litlu verra að fá matarolíu beint í æð.

 

6. Beikon.
Beikon er í rauninni ekki kjöt. Um 95% hitaeininga úr beikoni koma úr verstu fitutegund sem finna má. Inniheldur mikið salt og nítrat. Beikon er einungis gott fyrir bragðlauka sem jafnframt eru haldnir sjálfseyðingarhvöt.

 

7. Kartöfluflögur
Af hverju borðar þú ekki bara smjörið beint upp úr dollunni? Kartöfluflögur eru nánast eingöngu djúpsteikingarfeiti í hörðum umbúðum. Saltið í þeim er ennfremur mikið.

 

8. Feitur ostur
37% ostur er kallaður svo vegna þess að það er hlutfall fitu í honum. Saltinnihald er mikið og hitaeiningar margar, ekki síst vegna þess að ofan á eina brauðsneið þarf u.þ.b. tvær sneiðar af osti, sem er þungur í sér og þar af leiðandi eru hitaeiningarnar fljótar að koma ef nokkrar brauðsneiðar eru borðaðar. Allur ostur er þó ekki ættaður frá helvíti, því til eru margir magrir ostar sem eru ágætir og í góðu lagi er að nota svolítið af osti í uppskriftir til þess að gera þær ætar.

 

9.Hamborgarar
Um 600 hitaeiningar eru í einum meðalstórum hamborgara. Það er ekki endilega hamborgarinn sjálfur sem er fituríkur, heldur sósurnar og meðlætið. Ekki síst kokteilsósan og osturinn sem einnig eru á listanum.

 

10. Snarl fyrir svefninn
Ástæðan fyrir því að við setjum almennt snarl fyrir svefninn í tíunda sæti en ekki ákveðna fæðutegund er að hver og einn á sér sinn veikleika í mat. Ef borðað er skömmu fyrir svefninn eru óþægilega miklar líkur á að sú máltíð hlaupi í spik. Margir svæfa sig á kvöldin með því að fá sér eitthvað að borða rétt áður en farið er að sofa, gjarnan fyrir framan sjónvarpið. Ef þú verður að fá þér eitthvað áður en farið er að sofa, gættu þá hófs og borðaðu eitthvað mjög létt og lítið.